Svipmynd frá Grundartanga.

Eldur við verksmiðju Elkem í nótt

Laust fyrir klukkan tvö í nótt var allur mannskapur Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar kallaður út að verksmiðju Elkem Ísland á Grundartanga. Eldur var þá laus undir töppunarpalli, á stað þar sem töluvert af glussa er geymt undir. Starfsmenn glímdu við eldinn meðan beðið var aðstoðar slökkviliðs og höfðu tæmt úr fjörutíu slökkvitækjum og þannig náð að halda eldinum í skefjun. Enginn slasaðist í þessu óhappi. Jens Heiðar Ragnarsson slökkviliðsstjóri sagði í samtali við fréttastofu RUV í morgun að mun betur hafi farið en á horfðist í fyrstu þar sem starfsmenn Elkem voru búnir að ráða niðurlögum eldsins að mestu áður en slökkvilið náði á vettvang.

Haft er eftir Álfheiði Ágústsdóttur forstjóra Elkem, á vef RUV, að ekki liggi fyrir hvað orsakaði það að eldur kviknaði. „Það kviknar eldur á jarðhæðinni. Við vitum ekki ennþá hvað er að valda. Hvort það var blossi frá framleiðslunni eða rafmagnsbruni. Það kviknar eldur undir svokölluðum töppunarpalli sem líklega hefur verið glussabruni eða rafmagnsbruni sem viðheldur honum svona,“ sagði Álfheiður við fréttavef Ríkisútvarpsins. Slökkva þarf á einum ofni af þremur í verksmiðjunni meðan viðgerð fer fram og áætlað að hún taki um vikutíma.

Sjá frétt RUV um málið

Líkar þetta

Fleiri fréttir