Systur verða á Hinseginhátíð Vesturlands í Snæfellsbæ

Laugardaginn 23. júlí koma Systur fram á Hinseginhátíð Vesturlands í Ólafsvík að lokinni gleðigöngu, en gangan hefst kl. 14:00. Félagið Hinsegin Vesturland mun halda aðra Hinseginhátíð Vesturlands í Snæfellsbæ helgina 22. – 24. júlí 2022. Félagið var stofnað í febrúar 2021 og hélt fyrstu Hinseginhátíð Vesturlands í Borgarnesi 9.-11. júlí á síðasta sumri. Talið er að um 1200 manns hafi sótt hátíðina. Ákveðið var í upphafi að hátíðin myndi flakka á milli sveitarfélaganna á Vesturlandi til að auka sýnileika hinsegin fólks um allan landshlutann og mun nú fara fram í Snæfellsbæ 22. – 24. júlí. Hápunkturinn og stærstu dagskrárliðirnir verða laugardaginn 23. júlí, en þá verður gleðiganga í Ólafsvík, sem og tónlistar- og menningardagskrá fyrir alla fjölskylduna. Meðal dagskrárliða verða Systur (Elín, Beta og Sigga), Bolli og Bjalla úr Stundinni okkar og Hljómsveitin Eva.

Föstudaginn 22. júlí verða Systur með fyrstu opinberu tónleikana frá því að þær tóku þátt í Eurovision. Tónleikarnir verða í Frystiklefanum í Rifi en Systur hafa á undanförnum vikum verið að semja og taka upp ný lög og ráðgera að senda frá sér smáskífuna Dusty Road í ágúst nk. Tónleikagestir geta því átt von á að heyra mikið af nýjum lögum í bland við vel þekkt kóver lög og svo auðvitað Með hækkandi sól.

Tónleikarnir í Frystiklefanum hefjast kl. 20:30 föstudaginn 22. júlí og miðaverð er 3.900 krónur. Miðasala á https://www.thefreezerhostel.com/

Líkar þetta

Fleiri fréttir