Garðar Sveinsson skipstjóri á fyrrum Helgu Guðmundsdóttur BA og Þórsness SH, en nú er skipið skráð í Lýbíu undir heitinu Tajons IMO-6413340. Aftan við stýrishúsið sést hvar Öndin kíkir fyrir hornið.

Öndin fær far með skipi til Lýbíu

Á morgun heldur úr höfn á Akranesi eldra 279 tonna fiskveiðiskip sem selt hefur verið til lýbísks útgerðarfélags. Framundan er 18 daga sigling og stefnan tekin á Trípólí í Lýbíu. Ekki er óþekkt að eldri fiskiskip séu seld til suðlægra landa þar sem þau fá gjarnan framhaldslíf við veiðar eða til að gegna öðru hlutverki. Það sem vekur sérstaka athygli er að aftast á skipinu stjórnborðsmegin er búið að koma fyrir fiskibátnum Öndinni AK sem seldur hefur verið til útgerðar í sama landi. Skessuhorn hitti skipstjórann í utanferðinni að máli á höfninni á Akranesi í hádeginu í dag, þegar nýlokið var við að koma Öndinni fyrir og binda. Garðar Sveinsson, margreyndur skipstjóri, mun sigla skipinu til Trípólí og með honum fimm manna íslensk áhöfn.

Skipið sem um ræðir á sér merka sögu. Það var upphaflega smíðað árið 1964 og hét Helga Guðmundsdóttir BA, þekkt aflaskip sem gert var út af Finnboga Magnússyni á Patreksfirði, sem lét smíða það fyrir sig í Noregi. Eftir veruna á Patró var skipið um tíma Þórsnes SH og gert út til skelveiða á Breiðafirði. Undanfarna tvo áratugi hefur skipið hins vegar verið bundið við bryggju, en hefur þó verið hreyft reglulega og einu sinni á þeim tíma var siglt á því til Grænlands. Garðar segir að skipið sé í ótrúlega góðu lagi miðað við aldur og fyrri sögu og vel við haldið. Hann kveðst því hlakka til siglingarinnar. Eftir komuna til Lýbíu segir hann að til standi að sandblása skipið og mála og eftir það verði það gert út til línuveiða við Máritaníu. „Ég áætla að siglingin taki um átján daga ef við verðum heppnir með veður, en þetta er um 3.200 sjómílna leið. Við verðum fimm í áhöfninni, allt Íslendingar, en eigandinn og sá sem ég vinn fyrir er Lýbíumaður sem keypti skipið af Gunnari Leifi Stefánssyni athafnamanni frá Akranesi. Jón Frímann Jónsson, annar Skagamaður, hafði selt líbýskri útgerð Öndina AK og var um það samið að hún fengi að fljóta með. Þess vegna má segja að við höfum byrjað ferðina með siglingu hingað á Akranes,“ segir Garðar.

Hann segir að heilmikið sé eftir af þessu skipi þótt það sé orðið 58 ára gamalt. „Það er með íslenskt haffærniskírteini en verður nú flaggað út til Lýbíu.“ Garðar segist ekki ætla að velja hefðbundna siglingaleið frá Reykjanesi með stefnuna á Portúgal, heldur fari hann frá Sandgerði og taki fyrst stefnuna til Vestmannaeyja og þaðan verði stímt til Bretlandseyja og siglt milli Írlands og Englands, mitt á milli Liverpool og Dublin. Aðspurður hvort ekki væri upplagt að koma við og sjá svo sem eins og einn fótboltaleik í leiðinni, hlær skipstjórinn og segir að í sjálfu sér væri það vel hægt.

Eftir það verður stefnan tekin á Biskajaflóa, meðfram strönd Spánar og Portúgals og inná Miðjarðarhafið. Aðspurður um hvort hann óttist ekki sjóræningja á þessari siglingaleið neitar hann því. Segist hafa miklu meiri áhyggjur af að flóttafólk á þessari siglingaleið reyni uppgöngu á skipið. „Það er kvíðvænlegt, því að um leið og flóttamenn eru komnir um borð í svona skip eru þeir á ábyrgð þess. Við vonum bara hið besta hvað það snertir,“ segir Garðar. Eftir að út verður komið reiknar Garðar með að verða ásamt vélstjóranum eitthvað lengur í Lýbíu og kenna á búnað og slíkt um borð í skipinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir