Hópur Úkraínufólks stóð fyrir móttöku á 17. júní í Landsbankahúsinu við Akratorg. Ljósm. ki.

Úkraínufólk á Akranesi bauð til móttöku á þjóðhátíðardaginn

Á þjóðhátíðardaginn 17. júní bauð úkraínskt flóttafólk, sem nú er búsett á Akranesi, gestum og gangandi að koma við í gamla Landsbankahúsinu við Akratorg. Hópurinn vildi með þessu sýna þakklæti fyrir móttökurnar sem fólkið hefur fengið. Boðið var upp á úkraínska tónlist og smárétti.

Andrea Vigfúsdóttir er verkefnastjóri við komu flóttafólks til Akraness. Hún segir í samtali við Skessuhorn að nú séu 23 einstaklingar komnir frá Úkraínu og deilist fólkið niður á níu heimili í bæjarfélaginu. Fyrsta fólkið kom 29. apríl og síðustu tvær fjölskyldurnar síðastliðinn miðvikudag. Akraneskaupstaður auglýsti í vor eftir íbúðum fyrir flóttafólk til leigu. Fyrirkomulagið er þannig að góðgerðarsamtök leigja íbúðirnar og síðan gera þau leigusamninga við flóttafólkið. Andrea segist búast við að margir muni ílengjast á Akranesi og séu þegar komnir með vinnu. Aðrir séu þó harðákveðnir í að snúa aftur til heimalands síns þegar stríðinu lýkur og þangað verður óhætt að fara. „Fimm eða sex eru nú þegar komin í vinnu og börn hafa sótt skóla eða komin í dagvistun. Þetta hefur gengið ótrúlega vel. Fólkið frá Úkraínu er jákvætt með veruna hér á Akranesi og vildi með þessari móttöku á föstudaginn sýna þakklæti sitt og buðu Akurnesingum til móttöku í Landsbankahúsinu,“ sagði Andrea.

Líkar þetta

Fleiri fréttir