Sumartónleikar í Hallgrímskirkju á sunnudaginn

Sunnudaginn 26. júní kl. 16 munu Rósa, Rímsen og Tríó Zimsen, syngja, kveða og leika á hljóðfæri í Hallgrímskirkju í Saurbæ. Tónleikarnir eru liður í sumartónleikaröð í kirkjunni. Undanfarin ár hefur fjölskylda Rósu Jóhannesdóttur komið fram á ýmsum stöðum, leikandi á fiðlur, harmonikku, ukulele og píanó, ásamt söng og kveðskap. Börnin sem kalla sig Tríó Zimsen, syngja alls konar lög í þremur röddum og þær mæðgur syngja dúetta saman. Inn í tónlistardagskrána flétta þau kveðskap, oftast eftir fjölskylduföðurinn, Helga Zimsen en ýmis önnur skáld slæðast einnig með eins og Hallgrímur Pétursson, Þórarinn Eldjárn, Davíð Stefánsson o.fl. Dagskráin hentar jafnt fullorðnum sem og börnum, erlendum gestum sem og íslenskum.

Þetta er fjórða tónleikaárið að Hallgrímskirkju í Saurbæ en grunnhugmynd tónleikanna, sem haldnir verða í kirkjunni sjálfri, er að viðhalda staðnum sem menningarstað og mun hann með tímanum vonandi verða aðdráttarafl fyrir landsmenn sem og erlenda ferðamenn. Aðgangseyrir er 3.000 kr. og eru allir velkomnir.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir