Steini Eyþórs kátur með gjöf frá Slökkviliði Borgarbyggðar eftir vel heppnaða reisu um Vestfirðina. Ljósm. sþ

Steini lauk í gær við að hjóla Vestfjarðahringinn

Síðdegis í gær renndi Borgnesingurinn Þorsteinn Eyþórsson á hjólinu sínu inn í Borgarnes og lauk þar með því afreki að hjóla Vestfjarða-hringinn á tíu dögum. Þorsteinn lagði af stað 12. júní síðastliðinn en í fylgd með honum var Anna Þórðardóttir eiginkona hans á húsbíl sem þau notuðu sem áningarstað. Þegar Þorsteinn, eða Steini eins og hann er gjarnan kallaður, kom inn í bæinn fékk hann heiðursfylgd lögreglu. Auk þess fylgdu hjólreiðagarpar úr Hjólreiðafélagi Vesturlands honum í gegnum bæinn auk þess sem Jóhann Harðarson frá Hraunsnefi fylgdi honum á hjóli frá Svignaskarði. Steina biðu mikil fagnaðarlæti við Skallagrímsgarð þar sem fjöldi fólks hafði safnast saman til að taka á móti honum. Slökkviliðið var mætt á svæðið með þrjá bíla sem biðu með blikkandi ljós Steina til heiðurs en hann hefur verið félagi í Slökkviliði Borgarbyggðar í áratugi. Slökkviliðið gaf Steina brunastút frá Coventry sem minjagrip í tilefni afreksins. ,,Þetta er breskur stútur frá Coventry og er þetta einn af stútunum sem notaður var til að slökkva í borginni þegar Þjóðverjar gerðu ofsafengna loftárás á Coventry í september 1942. Steini fær að hafa þetta sem stofudjásn frá okkur félögunum en hann er vel að þessu kominn,“ sagði Bjarni Kr Þorsteinsson sem afhenti Steina stútinn fyrir hönd Slökkviliðs Borgarbyggðar.

Steini segir í samtali við Skessuhorn að vel hafi gengið að hjóla Vestfirðina en ferðin gekk eftir fyrir fram planaðri áætlun. Steini segist hafa hjólað svolítið eftir veðri en hann tók einn hvíldardag í þjóðhátíðardags rigningunni á Ísafirði 17. júní. Lengsta vegalengdin sem hann hjólaði á einum degi voru 107 kílómetrar laugardaginn 18. júní: Hjólaði hann þá frá Ísafirði til Tálknafjarðar, yfir bæði Gemlufallsheiði og Dynjandisheiði.

Þess má geta að Steini er 68 ára og byrjaði að hjóla fyrir átta árum, sér til heilsubótar en einnig vegna ríkrar umhverfisvitundar. Steini hefur áður hjólað hringinn í kringum Ísland og Snæfellsnesið en hringinn hjólaði hann árið 2016 til styrktar ADHD samtökunum. Núna hjólaði hann til styrktar Píeta samtökunum í minningu tengdarsonar síns sem féll fyrir eigin hendi í vetur. Steini hefur nú þegar safnað um 1.400.000 krónum. Áfram er hægt að styrkja söfnun Steina en finna má nánari upplýsingar á Facebooksíðunni ,Athygli – já takk!“

Steini ásamt konu sinni, Önnu Þórðardóttur, sem fylgdi honum eftir á húsbíl alla ferðina.

Margt fólk var samankomið til að fagna heimkomu Steina.

Líkar þetta

Fleiri fréttir