Ný Borgfirðingabók komin í dreifingu

Sögufélag Borgarfjarðar hefur gefið út 23. árgang Borgfirðingabókar. Bókin er 290 síðna kilja, ríkulega myndskreytt og hefur að þessu sinni að geyma 19 greinar eftir ýmsa höfunda. Í formála, sem Ingibjörg Daníelsdóttir og Guðmundur Þór Brynjúlfsson skrifa, segja þau að stefna ritnefndar sé að hafa efni fjölbreytt og horfa til margra þátta, en eðli málsins samkvæmt sé þó söguleg varðveisla nokkuð stór þáttur með útgáfunni. Geta þau þess að aðkallandi sé að blása lífi í Sögufélag Borgarfjarðar og kalla fleiri til verka.

Bókarkápu prýðir að þessu sinni teikning eftir Jón Þór Sigmundsson listamann bókarinnar og er hún af glansandi rauðum Ford Bronco. Bílar koma víðar við sögu og segir Hreinn Ómar Arason m.a. frá bílum í eigu Sæmundar Sigmundsson og Bjarni Kr. Þorsteinsson ritar um þann drenglyndismann. Þá tekur Óli H Þórðarson frá Kleppjárnsreykjum saman yfirlit yfir banaslys í umferðinni í héraðinu, allt frá upphafi bílaaldar fram á þennan dag.

Bragi Ásgeirsson skrifar um Borgarnes um 1940, kauptún í mótun. Eftir Jón Böðvarsson og Þorstein Böðvarsson birtist síðari hluti greinar um Grafardal. Þær Guðrún Jónsdóttir, Þóra Guðrún Grönfeldt og Þóra Gylfadóttir minnast ömmu þeirra og langömmu; Guðrúnar Jónsdóttur frá Valbjarnarvöllum. Böðvar Guðmundsson skrifar um Ingibjörgu Ólafsdóttur saumakonu. Hjördís H Hjartardóttir fjallar um ríka kött ekkjunnar á Hraunsnefi í grein sem nefnist Aldrei láta góða sögu gjalda sannleikans. Sóley Baldursdóttir skrifar um verkefnið Barnvænt samfélag og Sigríður Valdís Finnbogadóttir birtir nokkur ljóð. Jón A Guðmundsson rifjar upp síldveiðar 1954. Inga Dóra Halldórsdóttir fjallar um endurmenntun í grein sem hún nefnir Svo lengi lærir sem lifir. Sveitaböllin í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu rifjar Guðmundur Þór Brynjúlfsson upp og Jón G Guðbjörnsson skráir sögu Dvalarheimilis aldraðra í Borgarnesi, síðar Brákarhlíðar. Loks er grein Ásdísar Haraldsdóttur um upplifun fólks frá strandi Pourquoi Pas? sem fórst út af Mýrum haustið 1936.

Borgfirðingabók 2022 er nú í þann veginn að berast áskrifendum. Ef þeir sem ekki eru áskrifendur hafa áhuga á að nálgast bókina er m.a. hægt að senda skilaboð á FB síðu Sögufélags Borgarfjarðar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir