Hópurinn kátur með Gunnu fyrir miðju. Ljósm. sþ

Nemendur í Hvanneyradeild GBF buðu fólki frá Úkraínu á hestbak

Nemendur í Grunnskóla Borgarfjarðar, Hvanneyrardeild, héldu fjáröflun og buðu flóttafólki frá Úkraínu, sem nú heldur til á Bifröst, á hestbak í síðustu viku. Á hverju ári standa nemendur fyrir slíku verkefni þar sem þeir selja m.a. jólakort og rennur ágóðinn til styrktar góðu málefni í samfélaginu. Í ár völdu krakkarnir að styrkja fólkið frá Úkrainu á Bifröst. Tókst krökkunum að safna góðum pening en í heildina söfnuðust um 100 þúsund krónur. Í samstarfi við Guðrúnu Fjeldsted á Ölvaldsstöðum í Borgarhrepp tókst að bjóða 60 manns á hestbak. Guðrún, eða Gunna eins og hún er oftast kölluð, segir þetta yndislegt verkefni og gaman að upplifa þakklætið sem skín af úkraínska fólkinu.

60 vilja komast á hestbak hjá Gunnu

,,Þetta er hópur númer tvö núna og ég tek tíu manns í einu. Ég dreifi þeim á þá daga sem ég er ekki upptekin og er að vinna í því núna að koma þeim öllum að í rólegheitum. Það verður sér hópur fyrir krakkana þar sem verður kannski meira teymt undir og svona. Krakkarnir á Hvanneyri söfnuðu þessum hundrað þúsund krónum og Heiðrún, verkefnisstjóri hjá Borgarbyggð, hringdi í mig og spurði hvort ég myndi gera þetta fyrir þann pening sem ég sagðist að sjálfsögðu myndi gera. Það er bara æðislega gaman að gera þetta fyrir þetta fólk. Ég sé hvað það er mikil upplifun fyrir þau og ánægja hjá þeim að fara út í ána og ríða yfir vatnið, horfa yfir til Hvanneyrar og umgangast skepnur. Sumir virðast samt vanari skepnum en aðrir. Eina sem er að það er svolítið erfitt að tala við þau, en allir gera sitt besta. Okkur tekst þetta öllum saman,“ segir Gunna.

Sjá nánar í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir