Skjáskot af korti en grænlitaði hluti Borgarbrautar sýnir áfanga eitt í verkefninu og verður gatan lokuð frá Egilsgötu að Skallagrímsgötu í sumar. Teikning/ þg

Hluta Borgarbrautar í Borgarnesi verður lokað í sumar

Veitur hafa tilkynnt að fyrir dyrum standi umfangsmiklar framkvæmdir á hluta Borgarbrautar í Borgarnesi, stofngötu bæjarins. Ásamt Veitum koma að framkvæmdunum Rarik, Vegagerðin og Borgarbyggð. Verkið felst í endurnýjun fráveitulagna, hitaveitu- og vatnslagna ásamt endurnýjun yfirborðs götu og gangstíga á um 550 metra kafla Borgarbrautar, milli Böðvarsgötu og Egilsgötu.

Verkefninu verður skipt upp í þrjá áfanga: Fyrsti áfangi verður í sumar og nær yfir Borgarbraut, frá Egilsgötu að Skallagrímsgötu, og eru áætluð verklok 1. október 2022. Í áföngum tvö og þrjú verður Borgarbraut, frá Skallagrímsgötu að Böðvarsgötu lokað. Framkvæmdir við áfanga tvö eiga að hefjast vorið 2023 og að þeim loknum verður unnið í áfanga þrjú. Gert er ráð fyrir að vinna við áfanga 2 og 3 standi yfir frá 1. apríl til 15. október 2023.

Framkvæmdirnar munu hafa umtalsverð áhrif á umferð á svæðinu en settar verða upp viðeigandi merkingar um hjáleiðir. Gera má ráð fyrir aukinni umferð vinnuvéla og öðru raski á verktímanum. Íbúar og fyrirtæki í bænum mega því búast við einstaka lokunum á rafmagni, hitaveitu og/eða vatnsveitu á verktímanum og verður upplýst um þær með eins góðum fyrirvara og hægt er hverju sinni, segir í tilkynningu frá Veitum.

Vegna framkvæmdanna í sumar verður götunni lokað frá Böðvarsgötu í norðri að Egilsgötu í suðri. Allri umferð verður beint um íbúðargöturnar Böðvarsgötu, Þórólfsgötu og Sæunnargötu og loks um Bjarnarbraut. Þannig munu hópferðabílar sem aka þurfa með fólk t.d. í Landnámssetrið og á Hótel Borgarnes, sem og aðrir stærri bílar, að fara um fyrrnefndar íbúðargötur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir