Svipmynd frá Akratorgi á Akranesi í byrjun júlí 2020. Ljósm. mm.

Úkraínufólk á Akranesi vill þakka fyrir móttökurnar

Á morgun, þjóhátíðardaginn 17. júní klukkan 14:30-16:00, mun úkraínskt flóttafólk sem nú er búsett á Akranesi bjóða gestum og gangandi að koma við í gamla Landsbankahúsinu við Akratorg. Hópurinn vill með þessu sýna þakklæti fyrir móttökurnar sem fólkið hefur fengið. Boðið verður upp á útkraínska tónlist og smárétti meðan birgðir endast.

Andrea Vigfúsdóttir er verkefnastjóri við komu flóttafólks til Akraness. Hún segir í samtali við Skessuhorn að nú séu 23 einstaklingar komnir frá Úkraínu og deilist fólkið niður á níu heimili í bæjarfélaginu. Fyrsta fólkið kom 29. apríl og síðustu tvær fjölskyldurnar í gær. Akraneskaupstaður auglýsti í vor eftir íbúðum fyrir flóttafólk til leigu. Fyrirkomulagið er þannig að góðgerðarsamtök leigja íbúðirnar og síðan gera þau leigusamning við flóttafólkið. Andrea segist búast við að margir muni ílengjast á Akranesi og séu þegar komnir með vinnu. Aðrir séu þó harðákveðnir í að snúa aftur til heimalands síns þegar stríðinu lýkur og þangað verður óhætt að fara. „Fimm eða sex eru nú þegar komin í vinnu og börn hafa sótt skóla eða komin í dagvistun. Þetta hefur gengið ótrúlega vel. Fólkið frá Úkraínu er jákvætt með veruna hér á Akranesi og vill nú sýna þakklæti sitt og bjóða til móttöku í Landsbankahúsinu á morgun,“ segir Andrea.

Eftirfarandi tilkynning er frá flóttafólkinu:

„Kæru íbúar Akraness!

Við, úkraínsku fjölskyldurnar sem komum til Íslands og hljótum hér tímabundna vernd vegna stríðsátaka í heimalandinu, viljum óska ykkur allra heilla í tilefni þjóðhátíðardagsins sem haldinn verður hátíðlegur innan skamms. Dags sjálfstæðisyfirlýsingar lýðveldisins Íslands. Það er okkur heiður að fá að fagna þessum degi með ykkur, en okkur er nú, meira en nokkru sinni, skiljanlegt hvers virði sjálfstæði og frelsi hins almenna borgara er.

Í þakklætisskyni fyrir hlýlegar móttökur Akraneskaupstaðar, þessa fallega bæjar, langar okkur að bjóða ykkur í heimsókn og bragða á úkraínskum mat og kynnast menningu okkar þann 17. júní nk. Við verðum í gamla Landsbankahúsinu við Akratorg (Suðurgötu 57) frá kl. 14.30-16.

Við hlökkum til að sjá ykkur!“

Líkar þetta

Fleiri fréttir