Svona er áætlað að húsið líti út. Ljósm. akranes.is

Niðurrif fyrirhugað á lóðinni Garðabraut 1 á Akranesi

Bæjarstjórn Akraness hefur samþykkt lýsingu vegna fyrirhugaðs deiliskipulags fyrir lóðina Garðabraut 1 á Akranesi þar sem starfsemi KFUM & K var áður til húsa í fjöldamörg ár. Fyrirhugað er niðurrif núverandi byggingar og byggingu fjölbýlishúss í stað hennar. Síðasta ár hefur Byggingarfélagið Bestla notað húsið fyrir sína iðnaðarmenn á svæðinu en ekki liggur enn fyrir hvenær niðurrif hússins hefst.

Í lýsingu á deiliskipulaginu, sem sjá má á heimasíðu Akraneskaupstaðar, segir meðal annars: „Fyrirhugað er að leggja fram tillögu að deiliskipulagi lóðarinnar þar sem gert verður ráð fyrir niðurrifi núverandi bygginga og uppbyggingu þéttrar íbúðarbyggðar í samræmi við áherslur í nýrri aðalskipulagstillögu og fyrri deiliskipulagstillögu. Með endurnýtingu lóðarinnar og uppbyggingu þéttrar íbúðabyggðar, sem tekur þátt í mótun bæjarmyndar svæðisins, er jafnframt stuðlað að framfylgd markmiða í landsskipulagsstefnu. Fullbyggð lóð á Garðabraut 1 mun fylla í ákveðið skarð sem er í bæjarmyndinni þar sem ný bygging mun nýta lóðina talsvert betur en núverandi hús gerir.

Hornhús við Garðabraut 1 verður í góðum tengslum við nærliggjandi byggð. Frávik frá almennri reglu um húsahæðir í gildandi aðalskipulagi byggist á samsvörun við hátt íbúðarhús vestan Þjóðbrautar og legu þessara húsa við mikilvæg gatnamót. Svæðið markar á vissan hátt upphaf miðbæjar Akraness sem nær frá Stillholti að Kirkjubraut og eftir Kirkjubraut að Akratorgi. Tvær háar byggingar verða sitt hvorum megin Þjóðbrautar þar sem hún endar á gatnamótum við Stillholt, Skagabraut og Garðabraut og markar þetta upphaf með fráviki í húsahæð.

Byggingin mun verða staðsett á suðvesturhorni lóðarinnar meðfram Þjóðbraut og Garðabraut og kallast þannig á við háhýsið sem stendur við Þjóðbraut 1. Form byggingarinnar verður vinkillaga með stíganda í hæðinni, frá sjö hæðum á horninu og lækka síðan í fjórar og fimm hæðir. Þannig brúar hún hæðarmuninn frá nærliggjandi húsum, þ.e. þriggja hæða fjölbýlishúsum við Þjóðbrautina og tveggja hæða fjölbýlishúsum við Garðabraut. Byggingin mun styrkja götuhornið Þjóðbraut-Garðabraut og mynda eins konar bæjarhlið með háhýsinu við Þjóðbraut 1.

Stefnt er að því að byggðar verði vandaðar íbúðir með góðu aðgengi, þ.e. bílageymslu og lyftu. Flestar íbúðir verða tveggja og þriggja herbergja og verður áhersla lögð á góða nýtingu fermetra. Stuðlað verði að gerð fjölskylduvæns bæjarumhverfis sem mætir þörfum allra fyrir húsnæði.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir