Úkraínskar konur sem búa nú á Bifröst. Frá vinstri: Dasha, Olena og Alóna. Olena býr til listaverk með íslenskum rúnum, Alóna er myndlistakona sem vinnur á Leikskólanum á Bifröst og Dasha er að fara að flytja til Keflavíkur og vinna á flugvellinum. Ljósm. sþ.

Borgfirðingar buðu flóttafólki upp á tónleika og kaffi

Síðastliðinn laugardag buðu sjálfboðaliðar úr Borgarfirði upp á tónleika og í kaffiboð fyrir nýja nágranna frá Úkraínu. Viðburðurinn fór fram í hátíðarsal Háskólans á Bifröst en flóttafólkið hefur verið að koma sér fyrir á staðnum undanfarnar vikur. Markmið með viðburðinum var að fólk sem býr í nærsveitum, og aðrir sem vildu, gætu hitt flóttafólkið frá Úkraínu og boðið það velkomið í samfélagið. Forsprakkar verkefnisins voru hjónin Olgeir Helgi Ragnarsson og Theodóra Þorsteinsdóttir en sjálfboðaliðar tóku svo við keflinu og sáu um framkvæmd kaffiboðsins.

Olgeir Helgi og Theodóra sáu um framkvæmd tónleikanna auk dætra sinna tveggja, söngkonunni Hönnu Ágústu og leik- og söngkonunni Sigríði Ástu, ásamt Jónínu Ernu Arnardóttur píanóleikara og eiginmanni hennar Vífli Karlssyni. Öll komu þau fram á tónleikunum þar sem þau fluttu íslensk þjóðlög, þýsk sönglög, óperettu- og söngleikjastykki auk fleiri verka. Eftir tónleikana var hægt að spjalla við flóttafólkið yfir kaffi og fá að kynnast þessum hópi sem einkennist af þakklæti og fallegri orku.

Sjá nánar í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir