

Dalamenn kusu um sameiningarkosti á laugardaginn
Íbúum í Dalabyggð bauðst á laugardaginn að taka þátt í könnun samhliða kosningum í sveitarstjórn um vænlega sameiningarkosti sveitarfélagsins. Á vef Dalabyggðar kemur fram að 304 hafi tekið þátt í könnuninni. 240 svöruðu játandi spurningunni hvort Dalabyggð ætti að hefja sameiningarviðræður. „Nei“ sögðu 22, en 26 merktu við að þeir hefðu ekki skoðun á því. Fimmtán seðlar voru auðir og einn ógildur.
Svör við spurningunni um hvaða sameiningarvalkostur væri æskilegastur voru eftirfarandi:
- Húnaþing vestra 71
- Sameinað sveitarfélag Helgafellssveitar og Stykkishólms 88
- Annað 94
Af þeim sem merktu við „annað“ var skiptingin þannig:
- 25 Reykhólahreppur og/eða sveitarfélög á Ströndum.
- 23 Húnaþing vestra ásamt Reykhólahreppi og/eða sveitarfélögum á Ströndum.
- 19 Borgarbyggð.
- 12 Stykkishólmur og Helgafellssveit ásamt Reykhólahrepp og/eða sveitarfélögum á Snæfellsnesi.
- Annað (færri en fimm á hvert) voru 15.
- Auðir seðlar voru 50 og einn ógildur.