Ráðherra hyggst efla lögregluembættin á landsbyggðinni

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur falið sjö lögregluembættum á landsbyggðinni að efla starfslið sitt og auglýsa stöður lögreglumanna. Lögregluumdæmin sem um ræðir eru Vesturland, Vestfirðir, Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland, Suðurland og Suðurnes. Ekki fylgir tilkynningu þar að lútandi hversu mikið stuðningur við embættin verður aukinn. Þá segir: „Markmiðið er að styrkja embætti lögreglu á landsbyggðinni þannig að hægt verði að efla útkallsviðbragð lögreglu og veita sambærilegri þjónustu um allt land. Eru þessi áform hluti af stærri endurskoðun á starfsemi lögreglunnar í landinu þar sem stefnt er að aukinni skilvirkni, betri nýtingu mannafla og þekkingar og að lögregla sinni fyrst og fremst sínu meginhlutverki,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Í samtali við Morgunblaðið í dag segir Gunnar Örn Jónsson, lögreglustjóri á Vesturlandi, að ekki liggi fyrir hvaða viðbót í fjármunum og mannskap embættið fái. Tekur hann þó fram að öll aukning verði kærkomin. Segir hann að fyrir liggi að styrkja þurfi hina almennu löggæslu á Vesturlandi, svo sem á dreifbýlum og fámennum svæðum, eins og á norðanverðu Snæfellsnesi og í Dölum.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir