Bið eftir læknatímum að lengjast

Erfiðlega hefur að undanförnu gengið að manna lausar stöður heilsugæslulækna á starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, meðal annars í Borgarnesi. Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir forstjóri HVE segir í samtali við Skessuhorn að Þórir Bergmundsson framkvæmdastjóri lækninga hafi að undanförnu lagt mikla vinnu í að manna lausar stöður, en það hafi gengið erfiðlega að fá lækna í afleysingar.

Íbúar á starfssvæði HVE í Borgarnesi og á Akranesi hafa undanfarið kvartað yfir langri bið eftir læknatíma. Nýverið var eins mánaðar bið í Borgarnesi eftir almennum læknistíma og nokkrar vikur á Akranesi. Jóhanna Fjóla bendir hins vegar á að áfram sé lögð rík áhersla á að sinna brýnum erindum sem leitað er með til heilsugæslustöðva samdægurs eða innan sólarhrings eftir bráðleika. „Til fróðleiks þá sýna tölur að á árinu 2021 fengu 50% viðtal við lækni innan 24 klukkustunda og 67% fengu samband í síma við lækni innan 24 klst. á heilsugæslustöðvum HVE. Auk lækna er einnig hægt að komast að hjá hjúkrunarfræðingum,“ bendir Jóhanna Fjóla á.

Aðspurð um ástandið í Borgarnesi sérstaklega upplýsir Jóhanna Fjóla að í vetur hafi verið tveir fastir læknar við störf þar auk þess sem ein staða hefur verið leyst með læknum í afleysingum. „Annar læknirinn hefur nú sagt upp og hættir 31. júlí. Því er aðeins einn fastur læknir frá þeim tíma miðað við stöðu dagsins. Tvær auglýsingar eru í gangi á Starfatorgi, önnur fyrir sérfræðing í heimilislækningum og hin fyrir yfirlæknisstöðuna. Umsóknarfrestur um báðar stöðurnar rennur út 16. maí næstkomandi.

Hún segir að mikið álag sé á heilsugæslustöðvum á starfssvæðinu og víða um landið. Biðtími eftir viðtali hjá lækni er því víðar en í Borgarnesi langur m.a. á Akranesi og á höfuðborgarsvæðinu. „Áfram er lögð áhersla á að sinna brýnum erindum sem leitað er með til heilsugæslustöðva samdægurs eða innan sólarhrings eftir bráðleika,“ segir hún að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir