Svör framboða í Borgarbyggð um afstöðu til vindmyllugarða

Eins og mörgum er kunnugt hefur verið mikil andstaða í Þverárhlíð og einnig í Norðurárdal í Borgarfirði gegn hugsanlegum vindmyllu-framkvæmdum á Grjóthálsi og í landi Hvamms í Norðurárdal. Farið var af stað og safnað 90 undirskriftum, íbúa, landeigenda og náttúruunnenda, og í framhaldi af því áskorun send á öll framboðin sem bjóða fram til komandi sveitastjórnarkosninga. Hópur sem stendur að mótmælum við fyrirætlanirnar sendi skriflegar fyrirspurnir á þau framboð sem bjóða fram. Óskað var eftir því að þau segðu sinn hug til þessarra framkvæmda.

Í tilkynningu frá hópnum, sem óskað var eftir birtingu á í Skessuhorni, segir: „Nú hafa borist svör við fyrirspurn sem við, 90 landeigendur, ábúendur og náttúrusinnar, sendum öllum framboðum til sveitastjórnarkosninga í Borgarbyggð. Tilgangur fyrirspurnarinnar var að reyna að kalla fram skýra afstöðu framboðanna til vindmylluframkvæmda í Borgarbyggð, en eins og allir vita að þá hafa verið kynntir tveir vindmyllugarðar annar á Grjóthálsi og hinn í Norðurárdal. Það þarf vart að nefna það að mikil andstaða er meðal íbúa og landeigenda í Norðurárdal og Þverárhlíð gegn þessum fyrirhugðu framkvæmdum og ekki þarf að fjölyrða hér þau náttúrulýti og hin sjónrænu umhverfisspjöll sem slíkar framkvæmdir koma til með að hafa. Ótaldar eru síðan aðrar afleiðingar, svo sem lækkun fasteignaverðs í nágrenni við fyrirhugaðar vindmyllur, áhrif á ferðamennsku, áhrif á laxveiði og svo framvegis. Svör framboðanna eru um margt keimlík, vitnað í skipulagsmál, lög, rammaáætlun og almennt gjörðir ríkistjórnarinnar í þessum málum. Talað er um að uppsetning vindmyllugarða þurfi að vera í sátt og samlyndi við íbúa og að þeim verði valin staðsetning sem hentar. Þá er og minnst á skipulagsvald sveitarfélaganna o.s.fv. Þó kemur fram í svari eins framboðsins, VG, að þau muni alfarið leggjast gegn vindmylluframkvæmdum í Norðurárdal og Þverárhlíð a.m.k. á meðan andstaða við framkvæmdirnar er jafn afgerandi og raun ber vitni. Það verður ekki farið nánar hér ofan í svör hvers framboðs fyrir sig, lesendur verða að vega og meta en viðurkennt skal þó að svörin eru að mörgu leyti vonbrigði vegna þess einfaldlega að búist var við því að öll framboðin myndu standa gegn þessum fyrirhugðuðu vindmyllu framkvæmdum í Borgarbyggð. En það var greinilega full mikil bjartsýni,“ segir í tilkynningu en undir hana rita Kristín Helga Gunnarsdóttir landeigandi Króki Norðurárdal og Georg Magnússon Norðtungu 3 í Þverárhlíð.

Fyrirspurnirnar

Fyrirspurn frá íbúum og landeigendum til frambjóðenda til sveitastjórnar í Borgarbyggð:

„Á þessu kjörtímabili sveitarstjórnar í Borgarbyggð hafa íbúar í Norðurárdal og Þverárhlið staðið í ströngu. Landeigendur, fjölskyldur þeirra og annað fólk sem á þar athvarf eða er annt um þessar náttúruperlur Borgarfjarðar hafa mátt standa í baráttu við erlenda menn og húskarla þeirra sem vilja reisa risavaxin vindorkuver í Norðurárdal og Þverárhlíð. Við teljum að þessi áform séu óbætanleg náttúruspjöll, verði af framkvæmdum, og atlaga að tilveru okkar. Við höfum barist á móti þessum átroðningi af fremsta megni og um þá mótstöðu er yfirgnæfandi og eindregin samstaða. Sveitarstjórnin getur leyst þetta vandamál. Hún hefur það vald sem til þess þarf og við völdum þangað fólk sem við treystum til þess að verja hagsmuni okkar. Nú eru sveitarstjórnarkosningar framundan. Þá koma þeir fram sem vilja þjóna okkur á næsta kjörtímabili og gera grein fyrir hugmyndum sínum um betra samfélag og segja okkur hvernig þeir ætla að vinna að því. Nú leitum við til ykkar sem eruð í framboði og förum fram á það að þið svarið þessu erindi og gerið ljósa grein fyrir því hver afstaða ykkar er í þessu máli. Við þurfum á aðstoð ykkar að halda og við þurfum þess vegna að þekkja skoðanir ykkar. Sú þekking er okkur nauðsynleg í þeirri baráttu sem framundan er.

Með kveðju, kjósendur, landeigendur og náttúruverndarsinnar í Borgarbyggð.“

 

Svar Vinstri Grænna. Svar barst 11.04.2022.

Áform um uppbyggingu vindorkuvera eru nú í kortunum um allt land og standa mörg sveitarfélög frammi fyrir þeirri ákvörðun að þurfa að hafna eða samþykkja rannsóknir á virkjunarkostum og uppbyggingu vindorkuvera á komandi árum. Vinstri græn vilja stíga varlega til jarðar og vanda til verka, enda er um að ræða nýja leið til orkuframleiðslu sem engin haldbær reynsla er af hér á landi. Stefna Vinstri grænna á landsvísu kveður á að nú þegar skuli hefja vinnu við heildstæða áætlun um hvar á landinu megi reisa vindorkuver eða viðamikla vindorkugarða. Best fer á því að slík vindorkuver verði á fáum stöðum og á landsvæðum þar sem nú þegar eru vatnsaflsvirkjanir og hafa þá innviði sem orkuver krefjast. Dæmi um slíka nýtingu svæða eru áform um vindorkuver við Búrfellsvirkjun. Styrkja þarf lagarammann sem snýr að vindorkumálum, gæta þess að fasteignagjöld til sveitarfélaga séu í samræmi við raunverulega stærð vindmyllanna og tryggja að skattur sér greiddur af hverri krónu sem vindorkuverin búa til, ekki bara þeim tekjum sem landeigandi fær.

Skipulagsvaldið er í höndum sveitarfélaganna og á næsta kjörtímabili mun endurskoðun aðalskipulags fara fram. Vinstri græn í Borgarbyggð vilja skýrari stefnumótun um hvernig Ísland ætli að nýta vindorku og að sú vinna liggi fyrir áður en teknar eru ákvarðanir um vindorkugarða í Borgarbyggð. Verði slík stefnumótun ekki tilbúin er hins vegar ljóst að taka verður afstöðu til umsókna um einstaka framkvæmdir. Það er mikilvægt að undirstrika að aðalskipulag er ekki einkamál sveitarstjórnarfulltrúa heldur á það að mótast í samráði við íbúa á svæðinu. Nú eru uppi hugmyndir um tvö vindorkuver, annars vegar á Grjóthálsi og hins vegar í landi Hvamms. Íbúum gefst færi á að gera athugasemdir við aðalskipulag, en umtalsverð andstaða hefur verið við áformin á meðal íbúa á svæðinu. Þessum tilteknu verkefnum er því í raun sjálfhætt og munu Vinstri græn ekki sætta sig við að slíkum framkvæmdum verði hleypt í gegn á meðan andstaðan er jafn afgerandi og raun ber vitni.

Þegar vega þarf og meta stórar framkvæmdir líkt og vindorkuver þarf ávinningur sveitarfélagsins að vera skýr og sátt við íbúa og náttúru afgerandi. Vindorka er vissulega grænni orka en margir aðrir orkugjafar, en mikilvægt er að frekari leiðbeiningar liggi fyrir frá ríkisvaldinu um stefnu Íslands í þessari raforkuframleiðslu.

Thelma Harðardóttir, oddviti Vinstri grænna í Borgarbyggð.

 

Svar Sjálfstæðisflokksins. Svar barst 30.04.2022.

Borgarbyggð er sveitarfélag þar sem mikið er um náttúrperlur og einstaklingar koma langt að til að njóta gæða umhverfisins og óspjallaðrar náttúru. Hér er mikil og lífleg sumarhúsabyggð og ferðaþjónusta er mikilvæg atvinnugrein í héraðinu. Ljóst er að varhugavert gæti verið koma á laggirnar stórum mannvirkjum eins og vindmyllum í návígi við slík svæði og að starfsemin gæti verið til þess fallin að raska slíkum rekstri.

Eins og staðan er núna þá hefur ekki verið tekin afstaða til vindmyllugarða í aðalskipulagi Borgarbyggðar, hvorki á þessu svæði né annars staðar. Allar ákvarðanir eða stefnumörkun um slíkt þarf að nálgast að varfærni og byggja á faglegum forsendum út frá haldbærum gögnum varðandi t.a.m. umhverfis- og samfélagsleg áhrif. Erfitt getur reynst að vinna slíkt ferli til enda þar sem að vindorkuver falla undir lög um rammaáætlun og er hún bindandi við gerð skipulagsáætlana við þessar aðstæður.

Ljóst er að umræddir virkjunarkostir eru ekki í gildandi rammaáætlun en þess vegna telja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að það sé ekki tímabært að taka afstöðu til vindorkuvera í þeirri aðalskipulagsvinnu sem unnið er að á yfirstandandi ári. Það verður því ekki gert ráð fyrir þessu í aðalskipulagi sveitarfélagsins fyrr en viðhlítandi rammaáætlun liggur fyrir.

Kveðja, Lilja Björg.

 

Svar Framsóknarflokksins. Svar barst 25.04.2022.

Ath! Eftir að hafa ýtrekað beiðni um svar Framsóknarflokksins barst þetta svar þar sem Guðveig vísar í viðtal við sig í Skessuhorni fyrr í mánuðinum:

Umræðan um uppbyggingu vindmyllugarða víða um dreifðar byggðir landsins hefur verið áberandi síðustu misserin. Meðal annars hefur sú umræða teygt arma sína í Borgarbyggð, með hugmyndum um slíka garða í Norðurárdal og Þverárhlíð. Um afstöðu sína til málsins segir Guðveig: „Stefna ríkisstjórnarinnar er sú að hægt verði að beysla vindorkuna líkt sem og aðra orku.  Fyrir því er ég jákvæð enda mikilvægur þáttur í orkuskiptum og orkuöflun almennt. Hins vegar liggur ekki fyrir stefnumörkun um hvar slíkir vindorkugarðar eiga að rísa og hvar ekki. Þar sem stefnuna vantar er í dag um huglægt mat sveitarstjórnarfólks að ræða sem ekki er hægt að byggja á upplýsta ákvörðun. Öll umræða og þekking meðal sveitarfélaga er að mínu mati á núll punkti og nauðsynlegt að úr því verði bætt svo hægt sé að taka ákvarðanir byggðar á þekkingu um nýtingu vindorku í landinu. Það er því mitt mat að sveitarfélög geta ekki tekið ákvörðun um hvort þau mæli með slíku í aðalskipulagi, fyrr en ríkið mótar stefnuna og þekking sé til staðar. Ég held að það séu allir sammála um að það er einfaldlega ekki hægt að setja vindmyllugarða hvar sem er og mikilvægt að slík áform séu unnin vandlega og gerð í samráði við íbúa á hverju svæði ef til þess kemur.“ segir Guðveig Eyglóardóttir að endingu.

Kv, Guðveig

 

Svar sameiginlegs framboðs Samfylkingar og Viðreisnar. – Svar barst 15.04.2022.

Um framkvæmdir um beislun vindorku þarf að ríkja sátt meðal allrar þjóðarinnar. Skoðanir einstaklinga um þessi mál virðast vera þvert á flokka og um þessi mál þarf þjóðin að vera sátt með tilliti til náttúruverndar og hagsmuna þjóðarinnar um orkuöflun.

Við undirrituð frambjóðendur Samfylkingar og Viðreisnar í Borgarbyggð viljum að tekin verði hreinskiptin umræða um þessi mál og að stjórnvöld taki heildstæðari stefnu í rammaáætlun fyrir landið í heild um hvar þessi auðlind skuli nýtt og hvar ekki áður en lengra verður haldið.

Fyrir hönd Samfylkingar og Viðreisnar, Bjarney Bjarnadóttir, Logi Sigurðsson og Kristján Rafn Sigurðsson.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir