Lýsistankarnir bak við gamla Heimaskaga.

Lýsi dreifðist yfir Neðri Skagann

Íbúar á Neðri Skaganum á Akranesi urðu í gær varir við fituskelli á húsunum þeirra og einnig á bílum og götum. Síðar um daginn kom í ljós að sökudólgurinn var lýsistankur á bak við gamla Heimaskaga sem hafði dreift þó nokkru af lýsi yfir nágrennið og virðist hafa náð alla leið upp á Vitateig og þar í kring.

Að sögn Almars Sigurjónssonar rekstrarstjóra Fiskimjölsverksmiðjunnar hjá Brimi hf. var verið að skipa út lýsi í höfninni og fyrir útskipun er það hitað upp til að fá það dælanlegt. Þá varð það óhapp, þegar verið var að hita upp lýsið, að þá myndaðist einhver hringiða í gegnum dælustútinn ofan í tankinn þannig að það frussaðist út um öndunarrörið á honum. Svo var veðrið þannig að vindáttin hjálpaði til að þetta fór víða. Almar segir að málið sé í vinnslu, það sé verið að reyna að ná utan um þetta og fá aðila til hreinsunarstarfs á vegum Brims. Hann segir að lokum að lýsið sé ekki ætandi og ætti að vera nóg að þrífa með volgu vatni og sápu.

Þeir íbúar sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni er bent á að senda Brim heimilisfangið á netfangið: almar@brim.is.

Líkar þetta

Fleiri fréttir