Áslaug Arna og Gísli glaðhlakkaleg á stofnfundinum. Ljósm. vaks

Nýsköpunarnet Vesturlands stofnað

Stofnfundur Nýsköpunarnets Vesturlands (NýVest) fór fram í Breið nýsköpunar- og þróunarsetri að Bárugötu 8-10 á Akranesi síðdegis í gær. Páll S. Brynjarsson framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) setti fundinn og síðan tók Gísli Gíslason formaður undirbúningsnefndar NýVest og fundarstjóri við boltanum og kynnti félagið. Eftir að hefðbundinni stofnfundardagskrá lauk þá ávarpaði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fundinn auk þess sem Bergur Benediktsson frá Líftæknismiðju Breiðar og Árni Þór Árnason frá Fab-Lab smiðju Vesturlands kynntu starfsemina. Að lokum sá Helena Guttormsdóttir um kynningu á nýrri heimasíðu NýVest.

Í stuttu máli felst Nýsköpunarnet Vesturlands í því að tengja saman þá aðila sem vinna að nýsköpun á Vesturlandi og efla þau nýsköpunarsetur og samvinnurými sem eru að stíga sín fyrstu spor í flestum sveitarfélögum á Vesturlandi. NýVest lítur svo á að það sé mikil þörf fyrir það að tengja saman þá aðila sem vinna að nýsköpun til þess að miðla upplýsingum, þekkingu og hæfni á milli aðila. Með nánari tengingu verður einnig hægt að veita frumkvöðlum, fyrirtækjum og þeim sem sinna störfum án staðsetningar betri þjónustu. Hlutverk nýsköpunarnetsins verður að tengja saman atvinnulífið og menntastofnanir á Vesturlandi og verða vettvangur fyrir samstarf þessara aðila. Á svæðinu eru tveir háskólar, þrír framhaldsskólar, símenntunarstöð og þekkingarsetur þannig að þekkingarumhverfið á svæðinu er mjög sterkt.

Verkefnið gengur út á að nýsköpunarsetrin og samvinnurýmin verði í lykilhlutverki í nýsköpunarnetinu og samstarfið þeirra á milli. Þar verði hægt að nálgast faglegan stuðning við frumkvöðla og nýsköpun, sækja erindi og fræðslu sem tengjast frumkvöðlastarfi og nýsköpun, þau stuðli að aukinni umræðu og skoðanaskiptum og efli tækifæri til atvinnusköpunar. Ráðgjafar SSV verði aðgengilegir á þessum stöðum, en þeir geta veitt aðilum ráðgjöf við stofnun fyrirtækja, rekstrarráðgjöf, upplýsingar um sjóði og aðstoð við umsóknir, stuðlað að tengslamyndun við aðila innan Vesturlands sem utan og miðlað upplýsingum um atvinnulíf og byggðaþróun á Vesturlandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira