Sameining Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar samþykkt í afgerandi kosningu

Í dag gengu íbúar í Stykkishólmsbæ og Helgafellssveit á Snæfellsnesi til kosninga og samþykktu sameiningu sveitarfélaganna. Niðurstaðan varð afgerandi í báðum sveitarfélögum.

Í Helgafellssveit voru 56 á kjörskrá og kusu 52. Já sögðu 41, nei sögðu níu og auðir seðlar og ógildir voru tveir. Kjörsókn var því 93%.

Í Stykkishólmsbæ voru 837 á kjörskrá og kusu 460. Já sögðu 422, nei sögðu 34 og auðir seðlar voru fjórir. Kjörsókn var 55%.

Nú verður til tæplega 1300 manna sveitarfélag, blanda dreibýlis og þéttbýlis þar sem sjávarútvegur, ferðaþjónusta og landbúnaður eru helstu atvinnugreinarnar sem stundaðar eru. Meðal þess sem ákveðið var í viðræðum um sameininguna var að komið verður upp dreifbýlisráði sem verður ein af fastanefndum sameinaðs sveitarfélags og mun það fjalla um þau mál sem snúa að sveitinni sérstaklega, svo sem fjallskilamál og fleira.

Afgerandi niðurstaða

Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi var jafnframt formaður samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaganna. Hann kveðst í samtali við Skessuhorn vera afar sáttur með þessa niðurstöðu og ekki síst hversu afgerandi hún var. „Um er að ræða mikilvæga niðurstöðu fyrir okkar samfélag og er þessi skýra niðurstaða góður grunnur til að byggja næstu skref á. Það er mín sannfæring að þessi niðurstaða muni verða til heilla fyrir okkur, íbúa Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar. Við höfum alltaf litið á okkur sem eitt samfélag og það endurspeglast í þessari góðu kjörsókn og afgerandi niðurstöðu. Við erum sterkari saman,“ segir Jakob Björgvin.

Hann segir að næsta skref núna verði að bretta upp ermar og hefjast handa við undirbúning að nýju sveitarfélagi á grunni þeirra áherslna sem kynntar voru íbúum í aðdraganda kosninga. Kosið verður í nýju sameinuðu sveitarfélagi 14. maí næstkomandi.

mm

Líkar þetta

Fleiri fréttir