Íslenskt staðfest er nýtt upprunamerki fyrir matvörur og blóm

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra kynnti í dag nýtt upprunamerki, Íslenskt staðfest. Merkið á við um vörur sem eru framleiddar og þeim pakkað á Íslandi og mun það auðvelda neytendum að velja íslenskt. Til að mega nota merkið þurfa framleiðendur að ábyrgjast að hráefni sé íslenskt og framleiðsla hafi farið fram hér á landi. Kjöt, egg, sjávarafurðir og mjólk skal í öllum tilfellum vera 100% íslenskt. Allt að 25% innihalds í blönduðum/unnum matvörum má vera innflutt.

Svar við ósk neytenda

Í tilkynningu frá matvælaráðuneytinu kemur fram að neytendur vilja skýrar upplýsingar um uppruna matvöru og betri upprunamerkingar. Yfirgnæfandi meirihluti, eða tæp 90% landsmanna, vill velja íslenskt. Þá telja um 20% svarenda að þeir hafi upplifað að hafa verið blekktir við innkaup hvað varðar uppruna matvöru. Rúm 70% neytenda segjast óánægðir með að erlendar kjötafurðir séu seldar undir íslenskum vörumerkjum og 63% svarenda óska þess að innlendar matvörur verði upprunamerktar. Ríflega 80% neytenda kjósa íslenskar vörur í verslunum sé þess kostur. Þessar niðurstöður fengust úr viðamikilli könnun sem Gallup gerði fyrir Icelandic Lamb á síðasta ári.

Bændasamtök Íslands eiga og reka nýja upprunamerkið. Vottunarstofan Sýni sér um úttektir hjá þeim fyrirtækjum sem kjósa að nota það, en enginn má nota merkið nema hafa til þess leyfi sem sótt er um sérstaklega, gangast undir staðal merkisins og uppfylla opinberar kröfur til sinnar starfsemi.

Matvælaráðherra og forsvarsmenn Bændasamtakanna kynntu nýja merkið við athöfn í Hörpu fyrr í dag. Ljósm. Stjórnarráðið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir