Móðurskip sjóhersins mun liggja við stjóra utarlega í firðinum og frá því munu svo sigla landtökuprammar og svifnökkvar með liðsaflann sem telja mun 200-400 manns. Ljósm. mm.

Varnaræfingin Norður-Víkingur í Hvalfirði í apríl

Varnaræfingin Norður Víkingur verður haldin dagana 2.-14. apríl næstkomandi en þetta er í fyrsta sinn sem æfingin hefur verið haldin síðan árið 2011. Um er að ræða tvíhliða varnaræfingu Íslands og Bandaríkjanna en einn helsti hápunktur æfingarinnar verður æfing landtöku landgönguliða bandaríska sjóhersins af sjó. Þótti besti staðurinn fyrir þann hluta æfingarinnar vera Miðsandur í Hvalfirði, fjaran sem liggur á milli Hvalstöðvarinnar og gömlu olíubryggjunnar.

Óskað var eftir samstarfi við sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar, byggingarfulltrúa og skipulag- og umhverfisfulltrúa og var málið tekið fyrir á fundi umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar Hvalfjarðarsveitar miðvikudaginn 19. janúar. Í fundargerðinni kemur fram að landtökudagarnir verði dagpart á tímabilinu 8.-12. apríl og fer hún þannig fram að móðurskip sjóhersins mun liggja við stjóra utarlega í firðinum og „frá því munu svo sigla landtökuprammar og svifnökkvar með liðsaflann sem telja munu 200-400 manns. Liðsaflinn mun dvelja í fjörunni dagpart. Hugsanlega mun hluti hans leggja í göngu meðfram þjóðveginum,“ segir í fundargerðinni. Olíudreifing, eigandi landsins sem um ræðir, hefur gefið leyfi fyrir notkun á fjörunni og Hvalur hf. hefur einnig gefið leyfir fyrir að starfsmannaaðstaða fyrirtækisins í gömlu hermannabröggunum verði nýtt ef þörf er á því.

Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd Hvalfjarðarsveitar gerði ekki athugasemdir við æfinguna en hvetur jafnframt til þess að haft verði samráði við landeigendur á hverjum stað vegna skipulags og undirbúnings.

Líkar þetta

Fleiri fréttir