Falleg dagsetning getur verið krydd á annars góðan dag. Ljósm. Gunnhildur Lind Photography

Drop in brúðkaup fyrir þá sem vilja muna daginn

Garða- og Saurbæjarprestakall ætlar í febrúar að bjóða upp á svokölluð „drop in“ brúðkaup í Akraneskirkju, nánar tiltekið þriðjudaginn 22. febrúar 2022. „Eruð þið búin að stefna að brúðkaupi, en aldrei orðið af því, kannski út af covid eða bara einhverju allt öðru? Þann 22.02.2022 verður boðið upp á drop in brúðkaup í Akraneskirkju, einföld en falleg og hátíðleg athöfn. Tilvalið tækifæri til að láta verða af því að gifta sig og svo er auðvelt að muna dagsetninguna, sem getur komið sér vel,“ segir í tilkynningu frá prestum í sókninni.

Það sem fólk þarf að gera er að útvega fæðingar- og hjúskaparstöðuvottorð hjá Þjóðskrá og bóka síðan tíma hjá Akraneskirkju þennan dag eða kvöld. En fyrir hverja verður þetta? „Fyrir ykkur sem hafið alltaf ætlað að gifta ykkur en aldrei látið verða af því. Fyrir ykkur sem viljið gifta ykkur í fallegri kirkju, fá fyrirbænir og blessun en viljið ekki mikið tilstand. Fyrir ykkur sem viljið gifta ykkur,“ segja prestarnir.

Að sögn Þóru Bjargar Sigurðardóttur, prests í Akraneskirkju, er hugmyndin komin frá kollegum þeirra á Norðurlöndunum og í Grafarvogskirkju. „Prestarnir þar prófuðu þetta á síðasta ári og það gekk alveg ljómandi vel. Það var mjög vel sótt hjá þeim og við ákváðum að nýta þessa flottu dagsetningu því hún speglast og er svo flott þannig.“ Aðspurð með hugsunina á bak við þetta segir Þóra Björg þetta vera hvatningu til að fólk geti gift sig án þess að það sé of mikið tilstand því það eru margir í þeim hugleiðingum og nú sé tækifæri til að láta verða af því. En hvað með tímasetninguna klukkan 22 mínútur yfir tvö þennan dag sem yrði þá 2.22/22.2.22, er hún frátekin? „Nei, hún er enn laus. Fyrstur kemur, fyrstur fær.“

Þennan dag verða allir þrír prestar Akraneskirkju á vaktinni og munu skipta þessu á milli sín. Tíminn sem um ræðir er frá morgni til miðnættis ef þess þarf. Akraneskirkja annast athöfnina án endurgjalds með presti, organista og kirkjuverði og er áætlað að hver athöfn taki ekki lengri tíma en 30 mínútur. Brúðhjónin þurfa að hafa með sér tvo svaramenn og gesti í samráði við sinn prest.

Þóra Björg segir að þau hafi fengið góð viðbrögð við auglýsingunni og það séu nú þegar sex brúðhjón búin að bóka giftingu þennan dag í kirkjunni. Hún gerir ráð fyrir því að það bætist fljótlega við fleiri og biður fólk um að vera tímanlega því nú sé aðeins tæplega mánuður til stefnu. Hún segir einnig að þessi dagur sé alveg tilvalinn dagur til að ganga í heilagt hjónaband því þó umstangið sé ekki mikið að þá verði þetta hátíðlegt, skemmtilegt og án mikils tilkostnaðar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir