Þjálfaramálin hjá ÍA skýrast mjög fljótlega

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá ÍA, lét óvænt af störfum í gær og tók boði Knattspyrnusambands Íslands um starf aðstoðarlandsliðsþjálfara A landsliðs karla. Þetta kom fram í tilkynningu frá Knattspyrnufélagi ÍA þar sem kom fram að á næstu dögum yrði ákveðið hver tæki við af Jóhannesi Karli. Á meðan mun þjálfarateymi meistaraflokks karla, undir stjórn aðstoðarþjálfarans Guðlaugs Baldurssonar, stjórna æfingum og leikjum liðsins.

Skessuhorn heyrði aðeins í Eggerti Hjelm Herbertssyni, formanni Knattspyrnufélags ÍA, varðandi þjálfaramálin og segir Eggert að það eina í stöðunni sé að leysa þetta hratt og vel: „Ég get lítið sagt núna, menn eru í starfi annars staðar og þetta er alltaf viðkvæmt. En við stefnum að því að ráða inn nýjan þjálfara mjög fljótlega, það eru alls konar pælingar í gangi en það er ekkert sem við getum gefið út formlega ennþá.

En kom þetta stjórninni á óvart? „KSÍ hafði samband við okkur fyrir rúmri viku síðan og bað okkur um heimild til að ræða við Jóa Kalla sem síðan kláraðist í gærmorgun með formanni KSÍ. Það var auðvitað búið að slúðra um þetta í fjölmiðlum en það hafði ekki borist til okkar og því kom þetta okkur aðeins á óvart.” Jói Kalli var með samning út næstu tvö tímabil hjá ÍA en vegna klásúlu í samningi hans var ekkert sem ÍA gat gert: „Við vorum í fimm ára verkefni með Jóa Kalla en KSÍ virkjaði klásúlu í samningi hans og gekk til samninga við hann. Það var gengið frá því og við getum ekki stoppað það ef klásúlan er virkjuð.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir