Staðfestir ákvörðun um lokun mannvirkja í Brákarey

Fyrr í mánuðinum bárust Borgarbyggð tveir úrskurðir samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytisins vegna ákvarðana slökkviliðsstjóra Borgarbyggðar í málefnum Ikan ehf., um lokun húsnæðis að Brákarbraut 27, innsiglun húsnæðis Ikan ehf. og synjun um afhendingu frekari gagna. Ákvarðanir slökkviliðsstjóra voru staðfestar af hálfu ráðuneytis í báðum tilfellum.

„Í úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins er staðfest að aðgerðir slökkviliðsstjóra vegna Brákarbrautar 25-27, um bæði lokun húsnæðisins og innsiglun húsnæðis Ikan ehf. hafi verið í samræmi við valdheimildir slökkviliðsstjóra og stjórnsýslureglur. Byggðarráð telur mikilvægt að með þessu liggi fyrir afstaða æðra stjórnvalds til lögmætis umræddra aðgerða sem hafa verið umdeildar af hálfu þeirra leigutaka sem í eigninni hafi verið sem og annarra íbúa sveitarfélagsins. Niðurstaðan er því sú að eldvarnarfulltrúi sveitarfélagsins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hafa komist að sömu niðurstöðu um aðgerðir vegna Brákarbrautar 25-27,“ segir í bókun byggðarráðs frá í gær.

Líkar þetta

Fleiri fréttir