Starfsmenn Stafnafells voru að keyra í grunna húsanna sem staðsett verða við hlið ráðhúss Snæfellsbæjar og með glæsilegu útsýni upp að Snæfellsjökli. Ljósm. af.

Snælda byggir nýtt íbúðarhúsnæði á Hellissandi

Nýstofnað fyrirtæki Snælda ehf., sem er í eigu Hraðfrystihúss Hellissands og KG fiskverkunar í Rifi ásamt litlum eignarhluta Snæfellsbæjar, er byrjað framkvæmdir við byggingu tveggja raðhúsa á Hellissandi. Byrjað er að jarðvegsskipta í grunnum undir húsin, en þetta verða tvö raðhús með þremur íbúðum í hvoru og verða fjórar íbúðir 116 fermetrar að stærð með bílskúr en hinar tvær verða 80 fermetrar. Það er Nesbyggð sem byggir húsin en Stafnafell annast jarðvegsvinnu.

Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæjar segir í samtali við Skessuhorn að það vanti íbúðir í Snæfellsbæ og talsverður skortur er á vinnuafli í sveitarfélaginu. „Það vantar fólk alls staðar til starfa,“ segir Kristinn. Hann segir að m.a. vanti tilfinnanlega iðnaðarmenn á svæðið auk sjómanna. Hann vonast því til að þessar nýbyggingar muni laða að fólk til búsetu og starfa. Áætlað er að húsin verði tilbúin í lok þessa árs og verða þau sett í almenna sölu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir