Silfurtún í Búðardal.

Skoða að Silfurtún og Barmahlíð renni í eina sæng

Stjórn Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Silfurtúns var í síðustu viku falið að leita eftir samstarfi við Reykhólahrepp um sameiningu þess og Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Barmahlíðar á Reykhólum. Ákvörðunin var tekin á fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar, þann 13. janúar. Hún kemur í kjölfar fundar sem fulltrúar frá báðum sveitarfélögum sóttu og báru saman stöðu, rekstur og skipulag beggja heimilanna. Helstu samstarfsfletir eru samkvæmt minnisblaði frá fundinum bakvaktir, stjórnun, skýrslugerð, aukin gæðastjórnun og eftirlit. Er sameining talin besta færa samstarfsleiðin, en til að fjárhagslegur rekstrargrundvöllur verði tryggður, þyrfti að fjölga hjúkrunarrýmum á nýrri stofnun um tvo.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps fjallaði einnig um málið á sínum sveitarstjórnarfundi í síðustu viku og komst að sömu niðurstöðu, þ.e. að vinna að mögulegri sameiningu. Í samtali við Ingibjörgu Birnu Erlingsdóttur, sveitarstjóra Reykhólahrepps, kom fram að heimilin eru býsna lík að umfangi og gerð. Sömu áskoranir blasa við báðum heimilum, þannig að saman verði heimilin mun sterkari, en í sitthvoru lagi.

Barmahlíð á Reykhólum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir