Skagabón flutt í nýtt og betra húsnæði

Pálmi Þór Jóhannsson opnaði bílaþvottastöðina Skagabón á Akranesi 1. nóvember 2020. Fyrst um sinn var hann með aðstöðu í litlu iðnaðarbili við Kalmansvelli og rak hann stöðina á eigin kennitölu. Í dag hefur Pálmi opnað Skagabón í nýrri og betri aðstöðu við Faxabraut 3 og er fyrirtækið komið með eigin kennitölu. „Það var stefnan hjá mér að gera þetta að sjálfstæðu fyrirtæki árið 2022 og nú er það komið,“ segir Pálmi ánægður þegar blaðamaður Skessuhorns leit við hjá honum á mánudaginn.

Pálmi segir Skagamenn hafa tekið mjög vel á móti bílaþvottastöðinni og verið duglegir að nýta þjónustuna. Auk þess sem fólk hefur verið að koma langt að með bílana sína til hans. „Þetta hefur gengið rosalega vel og í raun farið fram úr öllum mínum væntingum,“ segir hann. „Þessa þjónustu vantaði hér á Akranesi og sést það bara á því hversu mikið hefur verið að gera hjá mér. En núna er ég loksins kominn í framtíðar húsnæði með frábæra aðstöðu,“ bætir hann við. Skagabón er nú að leita eftir starfskrafti en Pálmi er farinn að bjóða fólki upp á þjálfun í mössun og keramíkhúðun bíla og býður jafnframt þá þjónustu sjálfur.

Er með námskeið á laugardögum

Aðspurður segir Pálmi að vinsælast sé að koma með bílana í alþrif og djúphreinsun en að keramíkhúðunin hafi líka verið að slá í gegn. „Keramíkhúðunin er ótrúlega mögnuð, hún verndar lakkið fyrir rispum og svo verður bara mikið auðveldara að þrífa bílinn á eftir,“ segir Pálmi og bætir við að húðunin eigi að veita vernd í heilt ár. Hann vinnur með Gyeon vörur og er nú orðinn söluaðili fyrir vörurnar á Akranesi. „Ég er í samstarfi við ÓK bón í Reykjavík og er búinn að fara í sérþjálfun hjá þeim til að nota þessar vörur og er að þjónusta þá hér á Akranesi. Svo er ég líka með námskeið alla laugardaga þar sem ég er að kenna fólki að þrífa bílana sína með þessum frábæru vörum. Þeir sem hafa prófað að nota þessar vörur fara ekki í annað eftir það,“ segir Pálmi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir