Lárus Vilhjálmsson, Jóhanna G Harðardóttir og Brynja Magnúsdóttir skráðu kæru hjá lögreglufulltrúa á Akranesi í morgun.

Kæra verktakafyrirtæki fyrir brot á lögum um meðferð sprengiefnis

Íbúar sem búa bæði norðan og sunnan við Hvalfjörð hrukku ónotalega upp við sprengingu og skjálfta í kjölfarið, laust fyrir klukkan hálf sjö í gærkvöldi. Á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar mældist skjálfti upp á 0,7 stig og þar á bæ var farið að kanna hverju það sætti, enda Hvalfjörður ekki þekkt jarðskjálftasvæði. Eftir að íbúar fóru að ræða þetta sín á milli á samfélagsmiðlum var fljótlega upplýst að sprenging vegna grjótnáms skammt frá Grundartanga hafi verið orsökin. Það fékkst síðan staðfest síðar um kvöldið þegar verktakafyrirtækið Borgarvirki sendi Veðurstofunni tölvupóst og upplýsti að á þess vegum hefði verið unnið við sprengingar. Nágrannar hafa nú lagt fram kæru vegna málsins, en höggið af sprengingunni náði a.m.k. að Brekku í Hvalfirði og suður fyrir Meðalfellsvatn í Kjós.

Pétur Ingason, sem er í forsvari fyrir Borgarvirki, sagði í samtali við fréttavef Vísis í gærkvöldi að framkvæmdir hafi vissulega staðið yfir á Grundartanga. Algengt væri að slíkar sprengingar heyrist og að ekki hafi verið brugðið út af vananum í þetta skipti. „Þetta er bara spurning um hvað hljóðbært það er og annað, þannig að þetta er ekki neitt neitt. Það er mjög stillt yfir og þá heyrist bara meira. Það kemur höggbylgja í loftið og svona,“ sagði Pétur í samtali við fréttastofu Vísis.

Ólíkar tilgátur í fyrstu

Íbúar sem Skessuhorn hefur rætt við lýsa atburðinum ekki á sömu lund. Fyrst á eftir sprengingunni hafi fólkið dottið í hug að tundurtufl úr stríðinu hafi sprungið í firðinum, sprenging hafi orðið í verksmiðju, aðrir giskuðu á vígahnött, eða jarðvegsskrið og enn aðrir að loftsteinn eða jafnvel geimskip hafi fallið til jarðar. Ekkert skorti upp á ímyndunaraflið.

Húsið skalf og nötraði

Gunnar Þór Gunnarsson býr á Galtarlæk, næsta bæ við Grundartanga. Hann skrifar á íbúasíðu sveitunga sinna í gærkvöldi að sprengingin hafi ekki farið framhjá sér; „enda í 400 metra frá sprengingunni. Húsið skalf og nötraði. Mikill mökkur var eftir þessa sprengingu. Gott að enginn var í heilsubótargöngu í flóanum því Faxaflóahafnir eru að láta sprengja grjót á svæðinu. Hefðu mátt láta íbúa vita í næsta nágrenni,“ skrifaði Gunnar.

Hafa kært málið til lögreglu

Þrír íbúar við Hvalfjörð hafa nú lagt fram formlega kæru til Lögreglunnar á Vesturlandi og fer skýrslutaka fram eftir hádegið í dag. Það gerðu þau Jóhanna Harðardóttir í Hlésey, Brynja Magnúsdóttir í Galtarvík og Lárus Vilhjálmsson í Álfagarði, sem er sunnan megin við Hvalfjörð. Jóhanna segir í samtali við Skessuhorn að þau leggi fram máli sínu til stuðnings reglugerð um sprengiefni, nr. 510/2018. Borgarvirki hafi brotið í bága við nokkrar greinar þeirrar reglugerðar. „Það er ekki með nokkru móti hægt að sætta sig við að starfsmenn verktakafyrirtækja hagi sér eins og villimenn og brjóti lög og reglur sem að starfsemi þeirra snýr. Því ætlum við ekki að una og kærum því fyrirtækið og förum fram á formlega rannsókn lögreglu á þessu atviki,“ segir Jóhanna Harðardóttir.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir