Hamar reiddi til höggs gegn ÍA

ÍA og Hamar mættust í miklum botnbaráttuslag í 1. deild karla í gærkvöldi og fór leikurinn fram í Hveragerði. Hamar var með fjögur stig í næst neðsta sæti deildarinnar og ÍA með tvö stig í því neðsta áður en leikurinn hófst og því ansi mikilvægur leikur fyrir bæði lið. Skagamenn virtust alls ekki með á nótunum í byrjun leiks því það ótrúlega gerðist að ÍA náði ekki í sín fyrstu stig fyrr en eftir rúmlega sjö mínútna leik þegar Henry Engelbrecht tróð boltanum ofan í körfuna eftir sóknarfrákast. Á meðan höfðu heimamenn skorað nítján stig gegn engu gestanna og staðan alveg með ólíkindum, 19:2. ÍA náði þó að minnka aðeins muninn fyrir lok fyrsta leikhluta og staðan 22:9. Í byrjun annars leikhluta náðu Skagamenn með mikilli baráttu að saxa á forskotið enn meir og minnka muninn í átta stig og sá munur hélst nokkurn veginn þannig fram að hálfleik, staðan 37:27 fyrir Hamar.

Í þriðja leikhluta gerðu Skagamenn aftur atlögu að heimamönnum og náðu að minnka muninn í fjögur stig eftir tæplega fimm mínútna leik og spenna komin í leikinn. En þá sögðu heimamenn stopp, skoruðu næstu átta stig og þegar þriðja leikhluta lauk var staðan orðin 62:52 fyrir Hamar. Í byrjun fjórða leikhluta gerðu Skagamenn enn á ný áhlaup, skoruðu fyrstu fimm stigin en þá vöknuðu heimamenn upp af værum blundi og gáfu gestunum engin grið. Það sem eftir lifði leiks náðu þeir að skora 30 stig gegn aðeins 13 stigum ÍA og ljóst að Skagamenn sprungu á limminu seinni hlutann í síðasta fjórðungi leiksins, lokatölur leiksins 92:70 fyrir Hamar.

Staðan eftir þennan leik í deildinni er þá þannig að ÍA er enn neðst með tvö stig, Hamar með sex og Hrunamenn í þriðja neðsta sætinu með átta stig. Það er því ljóst að það er erfiður róður fram undan hjá liði ÍA og ekki bætir úr skák að þeirra besti maður í vetur, Cristopher Clover, er enn frá vegna meiðsla.

Stigahæstir í liði ÍA voru þeir Davíð Alexander Magnússon með 18 stig, Þórður Freyr Jónsson með 14 stig og þeir Ómar Örn Helgason og Tómas Andri Bjartsson með 9 stig hvor. Hjá Hamri var Dareial Franklin ansi öflugur með 43 stig og 15 fráköst, Ragnar Magni Sigurjónsson með 14 stig og Oddur Ólafsson með 8 stig.

Það er ekki langt í næsta leik Skagamanna þó ferðalagið sé stutt því næsta mánudag mæta þeir liði Skallagríms í Borgarnesi í Vesturlandsslagnum og hefst leikurinn klukkan 19.15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir