Kristín Þórhallsdóttir með bikarinn ásamt Sonju Lind. Ljósm. umsb

Kristín íþróttamaður Borgarfjarðar árið 2021

Í gær var birt myndband á facebook síðu Ungmennasambands Borgarfjarðar þar sem tilkynnt var um fimm efstu íþróttamennina í kjöri Íþróttamanns Borgarfjarðar. Kristín Þórhallsdóttir hefur verið valin íþróttamaður Borgarfjarðar fyrir árið 2021 en hún var á dögunum einnig valin Íþróttamaður Akraness. Þetta er í fyrsta skipti sem sami einstaklingur ber sigur úr býtum í tveimur félögum. Um Kristínu sagði Sonja Lind Eyglóardóttir sambandsstjóri UMSB: „Þú hefur svo sannarlega sýnt það að það er aldrei of seint að byrja að æfa og keppa. Þú ert öðrum hvatning.“ Sonja Lind tilkynnti síðan um kjörið og sagði meðal annars í ræðu sinni að faraldurinn hefði sett verulegt strik í reikninginn fyrir bæði ungt fólk sem og afreksfólk en engu að síður hefði þeirra dugmikla íþróttafólk enn og aftur sýnt glæsilegan árangur bæði innanlands og utan. „Þeim ber að hrósa fyrir seigluna, dugnaðinn og að láta ekki þessa skrýtnu tíma draga sig niður, þau eru sannkallaðar fyrirmyndir.“ Alls voru 13 íþróttamenn tilnefndir og voru þeir í kjölfarið kynntir eftir stafrófsröð og þeirra helstu afrek tíunduð.

Í fimmta sæti í kjörinu var körfuknattleiksmaðurinn Bjarni Guðmann Jónsson. Bjarni spilaði með Fort Hays State University í Bandaríkjunum og var í byrjunarliðinu í öllum leikjum liðsins árið 2021. Bjarni sagði í myndbandinu varðandi framtíðina að markmiðið væri að ná að gera körfuboltann að einhvers konar atvinnu í einhvern tíma og komast eins langt og hægt er, spila þangað til hann hættir að geta hlaupið og svo náttúrulega bara að reyna að ná einhverjum titli í Borgarnes.

Í fjórða sæti var knattspyrnumaðurinn Helgi Guðjónsson sem leikur með Víkingi Reykjavík. Helgi var bæði Íslands- og bikarmeistari með liðinu á árinu. Helgi sagði að sá sem hefði veitt honum innblástur til að leika knattspyrnu væri pabbi hans og svo bara þessir helstu knattspyrnumenn sem hann hefði horft á í sjónvarpinu.

Í þriðja sæti í kjörinu var kraftlyftingakonan Alexandrea Rán Guðnýjardóttir. Hennar aðalgrein er klassísk bekkpressa og hlaut hún silfur á heimsmeistaramóti unglinga í Litháen á árinu og bætti sex ára gamalt Íslandsmet á Norðurlandamóti unglinga í Finnlandi. Alexandrea sagði það skemmtilegasta við bekkpressuna væri bara allt og það væri mjög gaman að vera sterk.

Í öðru sæti var golfarinn Bjarki Pétursson. Bjarki keppti á átta mótum á evrópsku Challenge Tour mótaröðinni árið 2021 og vann öruggan sigur á Meistaramóti Golfklúbbs Borgarness 2021. Bjarki sagði að hann hefði æft golf frá því að hann var svona átta, níu ára en hafi svo sem verið upp á golfvelli frá því hann var lítill polli í vagni hjá mömmu og pabba sínum.

Í fyrsta sæti, eins og áður sagði, var kraftlyftingakonan Kristín Þórhallsdóttir. Kristín var þrefaldur Íslandsmeistari í -84 kg flokki og setti fjölmörg Íslandsmet á árinu. Kristín er fyrsti Íslendingurinn til að ná Evrópumeistaratitli á þrílyftumóti innan kraftlyftinga og sínum besta árangri á árinu náði hún á Evrópumeistaramótinu. Fékk hún gull í fjórum greinum ásamt því að setja fjögur Íslandsmet og tvö Evrópumet. Kristín sagði í viðtali í myndbandinu að hún hefði æft frjálsar íþróttir frá því hún var fimm ára gömul til tvítugs og það væri góður grunnur fyrir þessa íþrótt sem kraftlyftingarnar eru. Varðandi framtíðina sagði Kristín: „Framtíðin, já eins og ég segi, árið 2021 var mjög gott ár hjá mér og kannski verður erfitt að toppa það en ég er að setja mér markmið fyrir næsta ár. Ég á lágmörk á Heimsmeistaramót og Evrópumeistaramót á þessu ári sem ég er náttúrulega að stefna á og mun taka einhver innanlandsmót líka og Íslandsmót vonandi.“

Ernir Daði hlaut Auðunsbikarinn.

Að lokum var afhentur Auðunsbikarinn sem er veittur af Minningarsjóði Auðuns Hlíðkvist Kristmarssonar en Auðunn Hlíðkvist lést, 2. ágúst 1995, aðeins 14 ára gamall. Bikarinn er veittur ungum íþróttamanni sem þykir efnilegur í íþrótt sinni, sýnir metnað í ástundun og framkomu og er góð fyrirmynd innan vallar sem utan. Tilgangur viðurkenningarinnar er að minnast Auðuns Hlíðkvist og einnig að styðja við og hvetja áfram unga og efnilega íþróttamenn á svæðinu. Auðunsbikarinn árið 2021 hlaut knattspyrnumaðurinn Ernir Daði Sigurðsson. Hann var ótrúlega ánægður að fá þessa viðurkenningu og sagði að það væri þvílíkur heiður. Sonja sagði við það tilefni: „Fyrir okkur sem munum eftir Auðunni á þessi viðurkenning alveg sérstakan stað í hjarta okkar.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir