Stjórnendur Gettu betur í ár. Frá vinstri, Laufey Haraldsdóttir, Kristjana Arnarsdóttir og Jóhann Alfreð Kristinsson. Ljósm. Ríkissjónvarpið.

FVA mætir FNV í Gettu betur á mánudaginn

Fyrri umferð spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, lauk í gærkvöldi með þremur viðureignum. Að keppni lokinni var dregið í viðureignir annarrar umferðar. Önnur umferðin verður í næstu viku og keppt á mánudag og miðvikudag. Skólarnir sem mætast í annarri umferðinni eru:

Mánudagur 17. janúar: Kvennaskólinn í Reykjavík – Menntaskólinn á Tröllaskaga Ólafsfirði, Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi – Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra Sauðárkróki, Menntaskólinn í Reykjavík – Framhaldsskólinn á Húsavík og Tækniskólinn – Fjölbrautaskólinn í Garðabæ

Miðvikudagur 19. janúar: Verzlunarskóli Íslands – Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Verkmenntaskóli Austurlands Neskaupstað – Borgarholtsskóli, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti – Fjölbrautaskóli Suðurlands og Menntaskólinn við Hamrahlíð – Menntaskólinn á Egilsstöðum.

Spurningakeppnin Gettu betur var fyrst haldin árið 1986 og hefur farið fram árlega síðan þá. Forkeppnin hefst í janúar ár hvert og fer þá fram í útvarpi. Að tveimur umferðum loknum eru átta lið eftir og færist keppnin þá í sjónvarpssal. Árið 2009 var metár í sögu Gettu betur. Þá tók alls 31 skóli þátt og hafa þeir aldrei verið fleiri. Gettu betur hefur ekki farið varhluta af Covid-19 faraldrinum. Allt stefndi í að úrslitin árið 2020 yrðu haldin án áhorfenda en svo fór að hvort lið fékk að hafa nokkra í salnum. Útvarpshluti keppninnar 2021 fór ekki fram á Markúsartorgi í Efstaleiti, eins og venjan hefur verið árin á undan, heldur í hljóðveri 12 á RÚV. Vegna fjöldatakmarkana var þessi hluti keppninnar án áhorfenda.

Menntaskólinn í Reykjavík er langsigursælasti skólinn í sögu Gettu betur. Alls hefur hann fagnað sigri 21 sinni og náði að vinna ellefu sinnum í röð frá árinu 1993 til ársins 2003. Alls hafa níu skólar unnið keppnina og næst á eftir MR koma Menntaskólinn á Akureyri og Kvennaskólinn í Reykjavík með þrjá sigra hvor og Verzlunarskóli Íslands með tvo. Þeir eru einu skólarnir sem hafa unnið keppnina oftar en einu sinni. Verzlunarskóli Íslands sigraði lið Kvennaskólann í Reykjavík í Gettu betur í fyrra, 31-17, og er því handhafi hljóðnemans sem er verðlaunagripur Gettu betur.

Þann 4. febrúar næstkomandi hefjast sjónvarpsútsendingar frá Gettu betur á RÚV og sjálf úrslitaviðureignin fer fram 18. mars.

Líkar þetta

Fleiri fréttir