Ríkið kaupir Mið-Fossa fyrir starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands

Gengið hefur verið frá kaupum á Mið-Fossum í Andakíl og sú aðstaða þannig tryggð Landbúnaðarháskóla Íslands til framtíðar. Skólinn hefur leigt aðstöðuna á Mið-Fossum undanfarin 16 ár og nýtt til kennslu í hestafræðum og reiðmennsku. Þar er til staðar stórt hesthús fyrir um 70 hross, glæsileg reiðhöll og góð aðstaða til hestamennsku og kennslu í faginu auk jarðnæðis og annars húsakosts. Nú þegar jörðin er komin í umsjón skólans til framtíðar opnast möguleikar á enn frekari uppbyggingu, að sögn Ragnheiðar I. Þórarinsdóttur rektors LbhÍ. „Þetta eru gleðilegar fréttir en við höfum stefnt að þessu frá vormánuðum 2019. Nú opnast ýmis tækifæri fyrir okkur til uppbyggingar. Það hefur verið mikil óvissa hjá okkur frá því jörðin var sett á sölu en samstarfið við fyrrum eigendur hefur ávallt verið mjög gott. Það var alltaf þessi möguleiki að fjársterkir aðilar myndu kaupa jörðina og við myndum missa aðstöðuna,“ segir Ragnheiður.

Hjá LbhÍ hefur undanfarið verið mikil aðsókn í nám og eru nemendagarðarnir fullir og aðstaðan á Mið-Fossum fullnýtt. „Aðstaðan þarna er algjör grunnur fyrir verklega kennslu í hestatengdum fögum og núna getum við eflt hestafræðina enn frekar og gert meira úr því námi sem og breikkað möguleika á námskeiðshaldi. Við getum jafnvel farið að bjóða upp á námskeið fyrir fólk erlendis frá sem getur komið yfir sumartímann og fengið að gista á nemendagörðum sem eru ekki fullnýttir á sumrin,“ segir Ragnheiður og bætir við að kaupin á Mið-Fossum skapi líka ný tækifæri til sóknar fyrir aðrar námsbrautir og endurmenntun við skólann. „Jörðin eykur möguleika í jarðræktar- og umhverfisrannsóknum og þegar liggja fyrir tillögur um vistheimt á landinu. Þá liggja jafnframt fyrir tillögur að beitartilraunum í samstarfi við sauðfjárbúið að Hesti sem er í eigu LbhÍ. Ávinningurinn af þessum kaupum er því margþættur og mun nýtast okkur mjög vel. Þetta er alveg stórkostlegur áfangi fyrir okkur sem styður vel við framtíðaruppbyggingu og þróun við Landbúnaðarháskóla Íslands,“ segir Ragnheiður.

Líkar þetta

Fleiri fréttir