Vilja að tíu íbúðir við Þjóðbraut verði í húsnæðissjálfseignarstofnun

Bæjarráð Akraness hefur samhljóma samþykkt að fela bæjarstjóra að fara í viðræður við fulltrúa Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um að væntanleg húsnæðissjálfseignarstofnun, sem ætlað er það hlutverk að stuðla að uppbyggingu almennra íbúða á landsbyggðinni, sæki um stofnframlag vegna kaupa á tíu íbúðum á Akranesi. Þær verði í fjölbýlishúsum sem nú eru í byggingu við Þjóðbraut 3 og 5 og byggð eru af Bestla Þróunarfélagi ehf. Í lögum um húsnæðissjálfseignarstofnanir segir að stofnframlag ríkisins skuli nema 18% af stofnvirði almennrar íbúðar og stofnframlag sveitarfélags nemi 12%. Stofnframlag ríkisins er alltaf í formi beins fjárframlags, en stofnframlag sveitarfélags getur falist í niðurfellingu eða lækkun á gjöldum á borð við lóðar- og gatnagerðargjöldum, húsnæði sem breyta á í almennar íbúðir eða beinu fjárframlagi.

„Kallað verður eftir yfirlýsingu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um skuldbindingu vegna framlags væntanlegrar húsnæðissjálfseignarstofnunar. Koma þarf m.a. fram heimilað hámarkskaupverð íbúða svo skilmálar verkefnisins verði uppfylltir,“ segir í fundargerð bæjarráðs. Akraneskaupstaður hefur þegar samþykkt heildarstofnframlag vegna íbúðakaupanna að fjárhæð 65 milljónir króna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir