Nýtt bílastæði fyrir göngufólk á Hafnarfjall

Hafnarfjall er óðum að verða eitt vinsælasta útivistarsvæði Vesturlands. Umferð göngufólks á fjallið fer stöðugt vaxandi og því lá beint við það yrði eitt af fyrstu verkefnum Ferðafélags Borgarfjarðar að bæta aðstæður fyrir göngufólk á þessu svæði. „Síðasta sumar var leiðin upp á Hafnarfjall stikuð og farið langt með að hreinsa í burtu ónýtar girðingar. Þá kom fram sú ábending að bílastæðum við rætur Hafnarfjalls væri ábótavant,“ segir Gísli Einarsson forseti Ferðafélags Borgarfjarðar í samtali við Skessuhorn. Félagið leitaði því til Vegagerðarinnar og óskaði eftir úrbótum. „Vegagerðin féllst á að öryggi vegfarenda stafaði ógn af ástandi bílastæðisins, meðal annars vegna þess að hægt væri að aka inn á það á fleiri en einum stað. Núna á fyrstu dögum nýs árs var ráðist í að lagfæra planið, með tilliti til öryggissjónarmiða, og á það núna að standast allar kröfur,“ segir Gísli.

„Stjórn FFB þakkar Vegagerðinni fyrir skjót og góð viðbrögð um leið og hún hvetur göngufólk áfram til að gæta varúðar. Göngufólk er sömuleiðis beðið að nýta þetta fína bílastæði en leggja ekki bifreiðum sínum á gamla þjóðveginn. Sú leið þarf að vera greið fyrir sjúkraflutninga ef óhöpp henda í fjallinu. Því má svo bæta við að á vegum FFB er nú unnið að gerð upplýsingaskiltis um gönguleiðir á Hafnarfjalli og verður það sett upp á hinu endurbætta bílastæði á vordögum,“ segir Gísli Einarsson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir