Ný stjórn Dreyra og reiðhöllin brátt vígð

Nýverið urðu stjórnarskipti í hestamannafélaginu Dreyra sem á starfssvæði sitt á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit. Nýr formaður er Ása Hólmarsdóttir en hún tekur við af Fjólu Lind Guðnadóttur. Varaformaður stjórnar er Sigurður Arnar Sigurðsson og aðrir stjórnarmenn Óttar Ellingsen, Þorsteinn Hörður Benónýsson og Ásta Marý Stefánsdóttir. Varamenn í stjórn eru Hjálmar Þór Ingibergsson og Viktoría Gunnarsdóttir.

Fyrr á þessu ári lauk reisingu og frágangi nýrrar reiðhallar Dreyra á Æðarodda. Félagsmenn hafa undanfarna daga unnið við ýmsan frágang innanhúss og þess vænst að höllin verði formlega vígð á næstunni. Nýja reiðhöllin mun gjörbreyta aðstöðu hestamanna til þjálfunar og keppnishalds. Sjálft húsið er límtréshús, 1.250 fermetrar að grunnfleti; 25 metra breitt og 50 metra langt. Það er Fasteignafélag Akraneskaupstaðar sem er formlegur eigandi hússins en gerður var langtímasamningur um reksturinn við Dreyra. Það er sambærilegt rekstrarform og milli Akraneskaupstaðar og Golfklúbbsins Leynis um Frístundamiðstöðina við Garðavöll.

Höllin er 1250 fermetrar að flatarmáli. Nú er unnið að lokafrágangi innanhúss. Ljósm. Dreyri.

Líkar þetta

Fleiri fréttir