Guðjón Ingvi Stefánsson. Ljósm. aðsend.

Andlát – Guðjón Ingvi Stefánsson fv. framkvæmdastjóri SSV

Guðjón Ingvi Stefánsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi er látinn, 82 ára að aldri. Guðjón var fæddur og uppalinn í Hveragerði. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Laugarvatni 1959 og verkfræðingur frá DTH í Kaupmannahöfn 1968. Eftir nám starfaði hann um tíma sem verkfræðingur hjá Hochtief við hafnargerð í Straumsvík og hjá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins. Guðjón flutti ásamt fjölskyldu sinni í Borgarnes árið 1973 þegar hann var ráðinn sem fyrsti framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi. Því starfi gegndi hann samfleytt til aldamóta. Flutti þá suður og kenndi síðustu starfsárin stærðfræði við Tækniskólann. Guðjón Ingvi eignaðist þrjú börn með eiginkonu sinni, Guðrúnu Broddadóttur, en þau skildu.

Haustið 2019 var haldið upp á fimmtíu ára afmæli Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi með fjölmennri samkomu í Hjálmakletti. Við þetta tækifæri ávarpaði Guðjón Ingvi Stefánsson gesti og fór stuttlega yfir sögu samtakanna sem hann var í forsvari fyrir í tæpa þrjá áratugi. Sagði hann að sem ungur verkfræðingur hafi hann verið ráðinn fyrsti framkvæmdastjóri SSV og gegnt því starfi fram undir aldamót. Hann hafði nokkru áður en hann var ráðinn í starfið getið sér gott orð fyrir röggsemi sem framkvæmdastjóri skákeinvígis aldarinnar þegar Fischer og Spassky áttust við í Laugardalshöllinni. Guðjón rifjaði upp að lagning slitlags á þéttbýlisstaði á Snæfellsnesi hafi verið eitt fyrsta átaksverkefnið sem SSV beitti sér fyrir á starfstíð sinni. Samtökin komu sér einnig upp húsnæði við Bjarnarbraut í Borgarnesi þar sem starfsemin fer enn fram. Aðstæður til reksturs voru gjörólíkar á þessum mótunarárum SSV, löngu fyrir tölvuvæðingu og sjálfvirkir símar ekki komnir í sveitir. Guðjón rifjaði upp að fljótlega hafi verið farið að skoða framtíðarstað fyrir sorpurðun og á vettvangi samtakanna var urðunarstaður valinn í Fíflholtum á Mýrum og jörðin keypt. Á upphafsárum samtakanna voru sveitarfélög á Vesturlandi 39, en nú eru þau tíu.

Guðjón var eftirminnilegur samferðarfólki sínu. Gat verið hrókur alls fagnaðar, hávaxinn og hávær, sem helgaðist af því að hann var heyrnadaufur frá barnsaldri og lá því hátt rómur. Hann tók virkan þátt í ýmsu félagsstarfi meðan hann bjó í Borgarnesi og var m.a. afar áhugasamur og fær briddsspilari. Þar kom afburða stærðfræðikunnátta sér vel. Guðjón fylgdist alla tíð afar vel með þjóðmálum og málefnum líðandi stundar. Þrátt fyrir að hafa ekki starfað síðustu tvo áratugina í þessum landshluta fór hann vikulega upp á Landsbókasafn til að glugga í Skessuhorn. Vissi því allt það helsta sem fram fór á svæðinu. Guðjón Ingvi sinnti ýmsum samfélags- og félagsmálum. Var m.a. þrívegis formaður Heyrnarhjálpar og sat um árabil í stjórn Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands, svæðisstjórn um málefni fatlaðra á Vesturlandi og stjórn verndaðs vinnustaðar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir