Hvassviðri spáð til kvölds

Gul viðvörun vegna hvassviðris er í gildi um allt vestanvert landið og miðhálendið til kvölds. Við Breiðafjörð verður suðaustan 18-25 m/s, en hvassast í vindstrengjum við fjöll og hviður um 40 m/s á þeim slóðum, t.d. á Snæfellsnesi. Rigning verður á láglendi en mögulega snjókoma á fjallvegum og gæti færð spillst.

Í ábendingu frá Vegagerðinni nú fyrir stundu kemur fram að á Reykjanesbraut verður sérlega hvasst þvert á veg með miklu vatnsveðri, verst á milli klukkan 12 og 16. Skafrenningur á Hellisheiði og blindhríð um tíma um miðjan daginn. Á Kjalarnesi og við Hafnarfjall eru ekki horfur á að lægi að gagni fyrr en eftir klukkan 18 í kvöld. Vindhraði mældist mest 57 m/sek í hviðum undir Hafnarfjalli nú fyrir skömmu. Vaxandi vindur er nú við Breiðafjörð og á fjallvegum og því ekkert ferðaveður.

Líkar þetta

Fleiri fréttir