Svipmynd úr Útvarpi Óðals árið 2008. Þessir „krakkar“ eru nú komnir á fullorðinsár. Ljósm. úr safni Skessuhorns.

Útvarp Óðal fer í loftið á mánudaginn

Árlegt jólaútvarp Nemendafélags Grunnskóla Borgarness, Útvarp Óðal, fer í loftið á mánudagsmorguninn næsta og standa útsendingar yfir í fimm daga frá klukkan 10-23 en lýkur klukkan 18.30 á föstudaginn. Fyrir marga er Útvarp Óðal órjúfanlegur hluti af jólahátíðinni og er dagskráin í ár ekki af verri endanum.

„Fyrir marga er Útvarp Óðal fastur liður í jólahefðinni,“ segir Kristín Valgarðsdóttir, deildarstjóri í Grunnskólanum í Borgarnesi í samtali við Skessuhorn. Hún heldur utan um skipulag útvarpsins fimmta árið í röð ásamt stjórn nemendafélagsins. „Krakkarnir hafa lagt mjög mikið á sig til að gera framúrskarandi gott útvarpsefni,“ segir Kristín og bætir við að öllum nemendum skólans gefist kostur á að koma fram í útvarpinu. „Nemendur í unglingadeild hafa unnið handrit í íslenskutímum og síðan fer meirihluti þeirra í beina útsendingu með þáttinn en þeir hafa val um það. Þættir nemenda á yngsta- og miðstigi eru ekki sendir út beint og fóru upptökur á þeim fram í þar síðustu viku“ segir Kristín. „Það verða mjög fjölbreyttir þættir þar sem meðal annars má finna þætti um tónlist, íþróttir, jólin og um allt á milli himins og jarðar og svo er auglýsingapakkinn alltaf spennandi. Krakkarnir búa sjálfir til auglýsingarnar, syngja, tala inn á þær og leika jafnvel. Það kemur alltaf skemmtilega út og ég vil þakka fyrirtækjum í Borgarbyggð sem hafa stutt vel við okkur ,“ segir Kristín. Nemendur sjá einnig um fréttaflutning og í hádeginu er tekinn púlsinn á bæjarlífinu, fluttar fréttir dagsins ásamt íþróttafréttum. Hápunktur fréttastofunnar er síðan þátturinn „Bæjarmálin í beinni“ sem er sendur út klukkan 13 í hádeginu síðasta útsendingardaginn og enginn má missa af.

Útvarpsstjóri er Valborg Elva Bragadóttir, formaður nemendafélagsins. Ungir og efnilegir tæknimenn útvarpsins koma frá nemendafélaginu og sjá um að allt gangi snurðulaust fyrir sig í útsendingunum.  Hægt er að hlusta á Útvarp Óðal í útvarpstækjum á FM 101,3 eða á netinu í gegnum spilarinn.is.

Líkar þetta

Fleiri fréttir