Lyflækningadeild HVE sett í sóttkví vegna omíkrons afbrigðis

Lyflækningadeild Sjúkrahússins á Akranesi hefur nú verið sett í sóttkví eftir að þar greindist smit af omíkron afbrigði kórónuveirunnar. Sá sem fyrst greindist með afbrigðið hér á landi lá á lyflækningadeild HVE á Akranesi þegar hann smitaðist. Fram kom í fréttum í gær að sá hafði verið fullbólusettur og auk þess fengið örvunarskammt. Þórir Bergmundsson umdæmissóttvarnalæknir á Vesturlandi segir í samtali við RÚV að deildin þar sem maðurinn lá sé nú í sóttkví, en þar liggja nú 12 sjúklingar. Í viðtalinu segir Þórir að nú séu engar innlagnir og heldur engar útskriftir af deildinni. Starfsfólkið sinnir sínum skjólstæðingum í fullum varnarbúningi. „Við þurfum að hafa deildina lokaða í að minnsta kosti 2-3 daga. Það fór strax í gang umfangsmikil skimun hjá starfsfólki og sjúklingum þegar þetta tilvik greindist að kvöldi 30. nóvember og við erum að endurtaka þá skimun í dag,“ segir Þórir. Hann á allt eins von á að fleiri smit greinist í dag. „Við eigum von á því að veiran hafi þegar dreift sér í samfélaginu,“ segir Þórir. Í morgun voru ýmsir sem eiga tengingu við einhvern úr þeim hópi sem greinst hefur með omíkron afbrigðið  verið boðaðir í skimun.

Eftir að fyrsta smitið af omíkron greindist hér á landi er skimað sérstaklega fyrir því hjá Covid-sjúklingum sem leggjast inn á Landspítala. Ekki hefur bæst við í hóp þeirra sem í gær höfðu greinst með afbrigðið og ekki hafa heldur fleiri lagst inn með það á Landspítala. „Við erum með þessi sjö tilfelli sem þegar hefur verið greint frá og það tengist allt þessu upphafstilfelli í kringum Heilbrigðisstofnun Vesturlands og Akranes,“ sagði Már Kristjánsson yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala í samtali við fréttavef RÚV í morgun.

Breytingin á skimun nú felst í því að sýni eru tvígreind og sérstaklega leitað að þeim frávikum sem greina omíkron frá öðrum afbrigðum kórónuveirunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir