Fiskimjölsverksmiðja Brims á Akranesi. Ljósm. úr safni.

Fyrirhuguð loðnubræðsla mun skerðast vegna skorts á rafmagni

Landsvirkjun hefur ákveðið að takmarka afhendingu á raforku til fiskimjölsverksmiðja í janúar, en verksmiðjurnar hafa samning við fyrirtækið um kaup á svokallaðri skerðanlegri orku, gegn hagstæðara verði. Nú mun í fyrsta skipti um árabil reyna á slíka skerðingu orkuafhendingar vegna orkuskorts. Þetta kemur sér sérlega illa í vetur í ljósi þess að útlit er fyrir stærstu loðnuvertíð í tuttugu ár hér við land. Í tilkynningu frá Landsvirkjun kemur fram að afhending til fiskimjölsverksmiðja verði takmörkuð við 25 MW í janúar, en á fullum afköstum geta verksmiðjurnar nýtt fjórfalda þá orku. Eftirspurn eftir raforku er sérlega mikil um þessar mundir og kemur á sama tíma og staða miðlunarlóna fyrir vatnsaflsvirkjanir er bágborin. Vegna hagstæðra ytri skilyrða og hás heimsmarkaðsverðs er eftirspurn eftir raforku mikil jafnt frá álverksmiðjunum, kísilmálmframleiðslu og gagnaverum, en öll þessi starfsemi vill nú meiri orku en til er í kerfinu.

Varðandi boðaða skerðingu á raforku til fiskimjölsverksmiðja segir í tilkynningu Landsvirkjunar að þessi skerðing haldi áfram í vetur ef aðstæður krefjast. „Haustið 2021 hefur verið kalt og þurrt og innrennsli til miðlunarlóna Landsvirkjunar verið töluvert undir meðallagi. Niðurdráttur miðlunarlóna hófst strax 1. október og hefur verið eindreginn síðan,“ segir í tilkynningunni.

Fram kemur að staðan sé sérstaklega erfið á Þjórsársvæðinu, en þar hefur lítil úrkoma síðustu misseri valdið lágri grunnvatnsstöðu þannig að rennsli í Tungnaá og grunnvatnsrennsli til Þórisvatns hefur verið í sögulegu lágmarki. Þó staðan á Norðausturlandi sé betri þá nýtist hún ekki sem skyldi vegna takmarkaðrar getu flutningskerfisins að flytja orku milli landshluta. „Staðan hverju sinni verður metin og tekin ákvörðun í samræmi við hana um hvort framhald verður á þessum aðgerðum,“ segir í tilkynningu Landsvirkjunar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir