Smíði hafin á fyrstu björgunarskipum Landsbjargar

Hafin er smíði á fyrsta nýja björgunarskipi Slysavarnafélagsins Landsbjargar hjá KewaTec í Finnlandi. Smíðin hófst formlega með svokallaðri kjöllagningu sem fram fór í skipasmíðastöð fyrir helgi. Nú er því formlega hafin smíði á fyrstu þremur björgunarskipunum en markmið Landsbjargar er að endurnýja öll þrettán björgunarskip sín og verður því áfram unnið að frekari fjármögnun verkefnisins. Hvert og eitt af nýjum björgunarskipum Landsbjargar kostar 285 milljónir króna. Með samkomulagi sem gert var í janúar síðastliðnum milli ríkis og Landsbjargar var tryggð að ríkið kostar allt að helming skipanna. Slysavarnafélagið Landsbjörg hafði safnað í nýsmíðasjóð í nokkurn tíma sem tryggði enn frekar getu þess til að ráðast í þetta verkefni, sem er stærsta einstaka fjárfestingaverkefni félagsins í sögu þess.

Áætluð afhending fyrsta skipsins er á goslokahátíð í Vestmannaeyjum í júní 2022 þar sem fyrsta skipið verður með heimahöfn. Áætluð afhending á öðru skipinu er fyrir árslok 2022 á Siglufirði. Smíði á þriðja skipinu hefst svo í janúar 2023 og afhending á því verður eftir mitt það ár.

Sjóvá styrkir

Nýverið var tilkynnt að Landsbjörgu barst styrkur frá Sjóvá að upphæð 142,5 milljónum króna til smíða á fyrstu þremur björgunarskipunum sem búið að er ganga frá kaupum á. „Fáheyrt er að svo rausnarlegar gjafir berist til sjálfboðaliðasamtaka og eru þetta sérstaklega ánægjulegar fréttir fyrir endurnýjun allra þrettán björgunarskipa félagsins, en Landsbjörg og Sjóvá hafa um áratugaskeið átt í farsælu samstarfi,“ segir í tilkynningu frá Landsbjörgu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir