Gísli S Jónsson. Ljósm. úr safni/ mm

Gísli Jónsson bauð lægst í bílabjörgun í Hvalfjarðargöngum

Í gær voru opnuð tilboð í bílabjörgun í Hvalfjarðargöngum fyrir árin 2022 til 2024. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á sléttar 70 milljónir króna. Gísli Stefán Jónsson ehf. á Akranesi var lægstbjóðandi með 79.980.000 krónur sem er um 14% yfir kostnaðaráætlun. Vaka hf. í Reykjavík bauð talsvert hærra, 187.673.000 krónur en það er um 168% yfir kostnaðaráætlun. Verkið felst í fjarlægingu og flutningi bifreiða, ferðavagna og annarra ökutækja sem hamla umferð og umferðaröryggi í eða við göngin, t.d. vegna bilana, óhappa eða slysa. Einnig er um að ræða fjarlægingu og flutning aðskotahluta á vegi.

Helstu magntölur fyrir hvert ár eru 300 klukkustundir vegna bílaflutningabifreiðar fyrir minni bifreiðar, 60 klukkustundir vegna stærri bifreiða og 20 klukkustundir vegna dráttarbifreiðar annars vegar og kranabifreiðar hins vegar.

Klausa í útboðsgögnum hefur vakið nokkra athygli og umræður á Facebook síðunni Til öryggis á Kjalarnesi. Í klausunni segir: „Viðbragðstími verktaka, frá tilkynningu/útkalli vaktstöðvar þar til verktaki er kominn á verkstað eða að göngum/gangamunna, skal að jafnaði ekki vera lengri en 45 mínútur.“ Þykir mörgum þessi viðbragðstími langur enda er umferðin um Hvalfjarðargöng gríðarlega mikil og fer vaxandi. Bili bíll í göngunum veldur það miklum töfum á umferð og þessi langi viðbragðstími því ekki boðlegur. Það mál er sjálfleyst því viðbragðstími Gísla, sem rekur fyrirtæki sitt á Akranesi, er mun skemmri.

Áður en Vegagerðin tók við rekstri Hvalfjarðarganga var ávallt vakt við göngin og viðbragðstími vegna bilaðra bíla í göngunum því afar skammur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir