Bílstjórar stytta sér leið um bílastæði

Það hefur komið mörgum gamalgrónum Skagamönnum og fleirum í opna skjöldu hversu mikilvægt Faxatorg á Akranesi er í samgöngukerfi bæjarins. Eins og kunnugt er standa nú yfir framkvæmdir við torgið og hefur það verið lokað frá því um miðjan nóvember. Margir hafa lent í hálfgerðum vandræðum því fara þarf fáfarnar hliðargötur til að komast leiðar sinnar. Þá hafa framkvæmdirnar einnig haft áhrif á stoppistöðvar strætó.

Við upphaf lokunarinnar sást oft til bíla sem einhvern veginn höfðu ratað inn í annars lokað torgið. Var stundum grátbroslegt að fylgjast með vandræðum ökumanna en að sjálfsögðu hló enginn að slíku á ritstjórn Skessuhorns, en skrifstofur blaðsins eru einmitt við téð Faxatorg. Ökumenn stoppa við hringtorgið og klóra sér í hausnum yfir því hvaða hjáleið sé nú best að fara.

Í leiðbeiningum sem Akraneskaupstaður gaf út við upphaf lokunarinnar voru tilgreindar hjáleiðir sem nota skyldi. Jaðarsbraut, Dalbraut, Esjubraut og fleiri götur voru ætlaðar sem hjáleiðir. Bílstjórar stytta sér hins vegar oft leið yfir nálægt bílastæði við torgið og jafnvel hafa verið dæmi um að menn hafi ekið eftir gangbrautum sem að sjálfsögðu er galið. Slíkt getur haft hættu í för með sér því gangandi vegfarendur á leið að eða frá bílum sínum geta verið óviðbúnir þessari auknu og oft á tíðum hröðu viðbótarumferð. Áætlað er að framkvæmdum við torgið ljúki um miðjan desember en veður getur haft áhrif á framkvæmdirnar og því nokkur óvissa um hve lengi lokunin muni vara.

Leiðbeiningar um hjáleiðir vegna framkvæmda við Faxatorg:

https://www.akranes.is/is/frettir/faxatorg-lokun-midvikudaginn-17-november

Líkar þetta

Fleiri fréttir