Hálfviddarnir Viðar Engilbertsson og Ingi Björn Róbertsson ræddu við Sævar Frey Þráinsson, bæjarstjóra á Akranesi í Útvarpi Akranes 2018.

Útvarp Akranes byrjar á morgun

Útvarp Akranes byrjar útsendingar kl. 13:00 á morgun, föstudag. Athyglisvert er að þessi útvarpsstöð Sundfélags Akraness er komin vel á fertugsaldur og sendir nú út í 34. sinn. Það var Sigurður Sverrisson, þáverandi ritstjóri Skagablaðsins, sem var upphafsmaðurinn að Útvarpi Akranes. Margir Skagamenn hafa byrjað sinn feril í fjölmiðlun á Útvarpi Akranes.

Þar má nefna Ólaf Pál Gunnarsson, útvarpsmann með meiru, en hann byrjaði á Útvarpi Akranes 1988. Óli hóf síðar störf á Ríkisútvarpinu og hefur starfað þar allar götur síðan. Óli Valur Þrastarson byrjaði sem aðstoðartæknimaður hjá Óla Palla. Hann færði sig einnig yfir á RÚV. Hann stofnaði fyrirtækið Ofur sem síðar rann inn í Luxor sem sér einmitt um tæknihliðina á Útvarpi Akranes.

Að venju eru það Óli Páll og Hlédís sem opna dagskrána með þættinum Skaginn syngur inn jólin. Í þættinum spila þau lögin sem flutt voru í Skaginn syngur inn jólin í fyrra. Lögin í fyrra voru hvert öðru betra og að sögn Óla og Hlédísar eru lögin í ár síst lakari.

Á eftir Óla Palla og Hlédísi koma Hálfviddarnir Iddi Biddi, Viddi og Tómas. Í samtali við Tómas Alexander Árnason sagði hann að mjög líklega myndu þeir félagar taka viðtal við jólaköttinn. „Eins og kunnugt er neyddist jólakötturinn til þess að flýja Akureyri en hann hafði komið sér þægilega fyrir í Jólahúsinu þar fyrir norðan. Annars verður þetta bara almennt fjör og gaman. Kannski við sláum á þráðinn til Sr. Þráins og spyrjum hann hvernig Jesú hafi verið sem barn og hvort það hafi ekki verið ömurlegt að taka Móses með í sund,“ sagði Tómas.

Nína Gísla fjallar því næst um mat og kökur á jólum, Guðmunda og Heiðrún ræða um heilsueflandi samfélag á Akranesi og Birgir Þórisson segir frá Tónlistarskólanum á Akranesi, TOSKA. Þá koma fulltrúar 71 árgangsins og flytja lög miðaldra fólksins. Það verða svo rokkþingmennirnir Jón Allansson og Tómas Andrésson sem slá botninn í föstudagskvöldið  með Rokkþingi en þeir spila eingöngu tónlist af vínylplötum.

Dagskráin heldur síðan áfram á laugardagsmorgun kl. 9:30 með Jólakrökkum Grundaskóla og ýmsum áhugaverðum dagskrárliðum. Á sunnudagsmorgun taka Jólakrakkar 5. bekkjar Brekkubæjarskóla við keflinu og síðasti þátturinn, Gullkistan er mjög athyglisverður. Þar ræðir Bragi Þórðarson við Sr. Jón M. Guðjónsson en Sr. Jón var prestur á Akranesi 1946 til 1974. Sr. Jón lést 1997.

Skagamenn og aðrir áhugasamir eru hvattir til þess að kynna sér dagskrá Útvarps Akranes á Facebook síðu Útvarpsins auk þess sem dagskráin er auglýst í Skessuhorni vikunnar. Vakin er athygli á því að auk þess að senda út á FM 95,0 er hægt að hlusta á útvarpið á Facebook síðunni Útvarp Akranes 95,0 og sjá hvað er í gangi hverju sinni á www.iasund.is

Hlekkur á útsendingu Útvarps Akranes

Líkar þetta

Fleiri fréttir