Taphrina Skallagrímskvenna heldur áfram

Skallagrímskonur áttu ekki mikla möguleika þegar þær sóttu Íslandsmeistara Vals heim í Subway deild kvenna í gærkvöldi. Skallagrímur byrjaði þó af krafti, skoraði sex stig í röð og komst í 6:2. En síðan skoruðu þær ekki stig í tæpar sex mínútur og staðan 13:8 eftir fyrsta leikhluta. Annar leikhluti var á sömu nótum eins og sá fyrsti endaði, Valskonur unnu hann 25:10 og ljóst að Skallagrímur var í veseni. Varnarleikur Vals var ákafur og alls töpuðu Skallagrímskonur boltanum 16 sinnum í hálfleiknum en staðan í hálfleik 38:18.

Eftir leikhléið héldu Valskonur áfram að bæta forskotið, pressuðu á gestina og neyddu þær í erfið skot. Valur skoraði 34 stig á móti 17 stigum Skallagríms og staðan eftir þriðja leikhluta 72:35. Fjórði leikhluti var því aðeins formsatriði fyrir Val og þær sigldu sigrinum örugglega í hús, lokastaða leiksins 92:47.

Þetta var níunda tap Skallagríms í röð í deildinni en í viðtali við visir.is eftir leik sagði Nebojsa Knezevic, þjálfari Skallagríms, að hann hefði verið ánægður með byrjunina í leiknum og framlag ungu leikmannanna. Þá sagði hann einnig að nú verði þær bara að æfa og æfa og þannig ná sér í sjálfstraust og verða keppnishæfari það sem eftir er tímabilsins. Þess má einnig geta að liðið saknaði mjög Emblu Kristínardóttur en hún mun ekki leika meira með liðinu í vetur þar sem hún á von á barni.

Stigahæstar í leiknum í gærkvöldi voru þær Nikola Nederosíková sem var með 18 stig, Leonie Edringer var með 10 stig og Aðalheiður Ella Ásmundsdóttir með 8 stig. Hjá Val var Ameryst Alston með 22 stig og 11 stoðsendingar, Dagbjört Dögg Karlsdóttir með 14 stig og Eydís Eva Þórisdóttir með 11 stig.

Næsti leikur Skallagríms er gegn Breiðablik sunnudaginn 5. desember í Kópavogi og hefst klukkan 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir