Löng biðröð í skimun framan við heilsugæslustöð HVE í Grundarfirði. Ljósm. tfk.

Leikskólinn í Grundarfirði lokaður út vikuna

Í gærkvöldi var staðan í kóvidbylgjunni í Grundarfirði þannig að 46 íbúar höfðu verið greindir með smit. Í færslu Bjargar Ágústsdóttur bæjarstjóra kemur fram að í gær bárust tilkynningar um níu ný smit, en af þeim höfðu átta verið í sóttkví. Í sóttkví voru í gærkvöldi 91 í Grundarfirði, en voru 175 fyrr um daginn. Þetta eru nú rúm tæp 15% bæjarbúa og eru þá ótaldir foreldrar og forráðamenn sem eru heima með börnum í sóttkví.

Öll börn og starfsmenn leikskólans sem voru í sóttkví fóru í skimun í gærmorgun. Allt starfsfólk sem var í sóttkví fékk neikvæða niðurstöðu, sem er mjög gott að sögn Bjargar, og er því sóttkví þeirra aflétt. Ekki voru þá komnar upplýsingar um niðurstöður hjá leikskólabörnunum. „Að höfðu samráði nú síðdegis við sóttvarnalækni HVE var ákveðið að leikskólinn verði lokaður út vikuna. Er það gert í ljósi aðstæðna og óvissu sem enn ríkir um hve hratt við komumst frá smitum. Ef farið er of snemma af stað, gæti það lengt enn frekar yfirgangstíma smita og lokunar. Þó var farið yfir forgangslista, sem til staðar eru, og rætt við foreldra sem gegna störfum í forgangi,“ segir Björg. Því er stefnt að því að leikskólinn opni aftur mánudaginn 29. nóvember, ef allt gengur að óskum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir