Þessi mynd var tekin um hádegisbil 17. nóvember þar sem Hringur SH og Sighvatur GK liggja við landfestar á meðan Áskell ÞH býr sig undir að leggjast að bryggju. Farsæll SH er þar á eftir og svo í fjarska Vörður ÞH. Ljósm. tfk.

Enn fer mikill afli um Grundarfjarðarhöfn

Nóvembermánuður hefur verið erilsamur á höfninni í Grundarfirði en fjöldinn allur af skipum hefur komið þangað til löndunar. Í október var landaður afli um 2.100 tonn og var það helmingsaukning frá árinu áður. Mánudaginn 22. nóvember var landaður afli kominn í rúmlega 2.100 tonn en til viðmiðunar var landaður afli í nóvember 2020 1.339 tonn og stefnir því nóvembermánuður einnig í helmingsaukningu á lönduðum afla á milli ára.

Miðvikudaginn 17. nóvember síðastliðinn komu sjö skip til löndunar en klukkan fimm um morguninn kom Hringur SH. Svo fylgdu línuskipið Sighvatur GK, Togararnir Vörður ÞH, Áskell ÞH og Farsæll SH sem komu í hádeginu. Svo seinni partinn komu togararnir Steinunn SF og Helga María RE og lönduðu sínum afla. Það er því bjart yfir starfsmönnum hafnarinnar þessa dagana sem hafa í nógu að snúast.

Líkar þetta

Fleiri fréttir