„Einelti er sár staðreynd en sannleikur engu að síður“

Umræða um einelti sprettur skýtur jafnt og þétt upp kollinum og því ljóst að þetta þjóðfélagsmein er hvergi nærri upprætt. Á alþjóðlegum degi gegn einelti, 8. nóvember síðastliðinn, skrifaði Hannes S Jónsson faðir á Akranesi pistil sem vakti athygli víða, einnig í fjölmiðlum. Meðal annars var rætt við Hannes og fjölskyldu hans í Skessuhorni 17. nóvember sl. um einelti sem Jón Gautur sonur hans varð fyrir frá tíu ára aldri. Skrif Hannesar voru sett fram til að samfélög gætu bætt sig til að koma megi í veg fyrir að ofbeldi sem einelti er fái þrifist. Jón Gautur var frá tíu ára aldri og til loka grunnskóla nemandi í Grundaskóla á Akranesi. Sigurður Arnar Sigurðsson, skólastjóri Grundaskóla, ritaði í dag pistil sem lesa má í heild sinni hér á síðunni. Skrifar hann meðal annars: „Á síðustu dögum hefur umræða um eineltismál tengst Akranesi og Grundaskóla. Það er sár staðreynd en sannleikur engu að síður. Við sem störfum í skólanum tökum umræðuna nærri okkur en berum jafnframt umhyggju og virðingu fyrir málefninu. Skólafólk reynir hvað það getur og með öllum ráðum að vinna gegn samskiptavanda og vinna gegn einelti. Sem betur fer gengur oftast vel en því miður tekst í öðrum tilfellum ekki jafn vel upp þrátt fyrir góðan vilja,“ skrifar Sigurður Arnar.

Hann segir að í Grundaskóla sé markvisst unnið að forvörnum í öllum bekkjum skólans. „Árlega eru sendir út spurningalistar til bæði foreldra og barna. Á hverju ári er haustvitnisburður lagður undir samtal um líðan í skólanum. Skólinn framkvæmir tengslakannanir til að greina hvort einhver eigi í samskiptavanda og í hverri viku er haldinn bekkjarfundur til að ræða samskiptamál. Stefna skólans, uppeldi til ábyrgðar, miðar einnig að því að bæta félagslega líðan og samskipti milli einstaklinga.“ Þá vísar Sigurður Arnar á heimasíðu skólans og að í samskiptakerfi megi finna stefnu skólans í eineltismálum ásamt eyðublöðum ef menn vilja tilkynna um slíkt vegna barna sinna eða annarra barna. Öllum málum er fylgt eftir af fagaðilum. Sjá upplýsingar á eftirfarandi slóð: https://www.grundaskoli.is/is/skolinn/einelti

„Ný könnun meðal foreldra nemenda í Grundaskóla sýnir að foreldrar telja almennt líðan barna sinna góða eða mjög góða í skólanum. Almennt eru foreldrar einnig ánægðir með þjónustu skólans og upplýsingagjöf. Ánægja með þá umsögn má þó ekki skyggja á þá staðreynd að fimm foreldrar svara að börnum þeirra líði illa eða mjög illa.“

Pistil Sigurðar Arnars má í heild sinni finna hér.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gunnar Már flutti War is over

Sjómaðurinn, vélstjórinn og bóndasonurinn Gunnar Ármannsson opnaði sjötta glugga jóladagatals Skagamanna, Skaginn syngur inn jólin. Gunnar Már flutti lagið War... Lesa meira