{
"name": "core/freeform",
"attributes": [],
"saveContent": "Skallagrímur fékk lið Keflavíkur í heimsókn í Borgarnes í gærkvöldi í Subway deild kvenna í körfuknattleik og varð að sætta sig við sitt áttunda tap í röð í deildinni. Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta og munurinn fimm stig við flautið, 19:24. Keflavík náði að auka muninn aðeins meira í öðrum leikhluta og staðan 38:49 þegar liðin gengu til hálfleiks.\r\n\r\nKeflavíkurkonur voru á fleygiferð í þriðja leikhluta og gerðu út um leikinn. Staðan eftir þriðja leikhluta var 47:69 og aðeins spurning hve stór sigurinn yrði. Lítið gekk hjá Skallagrími að stöðva þær keflvísku í fjórða leikhluta og lokastaðan 63:94 fyrir Keflavík. Deildin er orðin tvískipt og í neðri hlutanum er Grindavík með fjögur stig, Breiðablik með tvö og Skallagrímur með ekkert. Það er því ljóst að enn er von fyrir Skallagrím en fyrsti sigurinn þarf þó að koma fljótlega.\r\n\r\nStigahæst hjá Skallagrími í leiknum var Leonie Edringer með 17 stig og 12 fráköst, Maja Michalska var með 15 stig og Breana Bey með 14 stig. Hjá Keflavík var Daniela Morillo með 22 stig, Tunde Kilin með 18 stig og þær Katla Rún Garðarsdóttir og Anna Ingunn Svansdóttir með 11 stig hvor.\r\n\r\nNæsti leikur Skallagríms er næsta miðvikudag gegn Val í Origo höllinni á Hlíðarenda og hefst klukkan 20.15.",
"innerBlocks": []
}
Skallagrímskonur töpuðu stórt fyrir Keflavík - Skessuhorn