Heiðarskóli í Hvalfjarðarsveit. Ljósm. arg.

Rakaskemmdir hafa greinst í Heiðarskóla

Skýrsla sem Hvalfjarðarsveit fékk Verkís til að vinna um ástand húsnæðis Heiðarskóla var kynnt fyrir starfsfólki skólans, foreldrum/forráðamönnum barna í skólanum og fulltrúum sveitarstjórnar í gærkvöldi. Þar kemur fram að rakaskemmdir hafa fundist á nokkrum svæðum í skólahúsinu. Við skoðun kom m.a. í ljós að víða var frágangur á gólfdúk ófullnægjandi og raki fannst undir gólfdúkum og í veggjum á nokkrum stöðum. Í niðurstöðum skýrslunnar segir að lélegur frágangur gólfdúks sé meginuppspretta skemmda. Þá eru votrými og þau svæði sem hafa orðið fyrir mestu rakaálagi verst farin en slík svæði má finna víða í skólahúsnæðinu. Þá er leki og þétting á nokkrum stöðum við útihurðir og gólfsíða glugga og segir í skýrslunni að þar eigi ekki við að hafa vínyldúk. „Þá þarf að fara yfir þéttingu á nokkrum stöðum og opna klæðningu að utanverðu til að finna uppsprettu leka á einhverjum stöðum þar sem vinnubrögð og þéttingaraðferðir eru ekki ljósar,“ segir í niðurstöðum skýrslunnar.

Hér má sjá raka og skemmdir við útihurð. Ljósm. úr skýrslu Verkís.

Í frétt á vef Hvalfjarðarsveitar um málið segir að það sé skýr vilji sveitarfélagsins að bregðast strax við þeim atriðum sem fram komu við skoðun á skólahúsinu og koma því í lag sem fyrst. Verkefnið framundan er talið tiltölulega einfalt þó það sé umfangsmikið miðað við fyrstu skoðun. „Aðgerðum verður forgangsraðað eftir mikilvægi þeirra og eru fyrstu aðgerðir þegar hafnar en gera má ráð fyrir að verktími vari langt fram á næsta ár,“ segir á vef Hvalfjarðarsveitar. „Það eru auðvitað vonbrigði fyrir sveitarfélagið að ástand húsnæðisins, sem er nýlegt, sé með þessu móti en meginorsök þess er tvenns konar, annars vegar rangt efnisval og hins vegar ófullnægjandi frágangur.“ Þá kemur fram að lagt verði upp með að skólastarf raskist sem minnst og verða hagsmunaaðilar upplýstir eins og kostur er um framvindu og aðgerðir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir